Heldur sigurganga Þórs á heimavelli áfram?
Þórsarar fá Selfyssinga í heimsókn í dag í Lengjudeildinni, næstefstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn, sem er í sjöundu umferð, hefst klukkan 18.00 á Þórsvellinum.
Liðin eru um miðja deild, Selfossysingar með 10 stig í fimmta sæti og Þór sæti neðar með níu stig.
Þórsliðið hefur unnið þrjá leiki í deildinni í sumar og tapað þremur; allir heimaleikirnir hafa unnist og allir útileikirnir tapast. Þór er eina lið deildarinnar sem hefur unnið alla heimaleiki en jafnframt það eina sem ekki hefur náð í stig á útivelli í sumar.
Á heimasíðu Þórs er rifjað upp að liðin hafa mæst 16 sinnum í næstefstu deild Íslandsmótsins og niðurstaðan er jöfn, sjö sigrar hjá hvoru liði og tvisvar hafa þau skilið jöfn. „Selfyssingar þó með fjórum mörkum fleiri í þessum 16 viðureignum, markatalan 26-30. Selfoss vann báða leiki þessara liða í deildinni í fyrrasumar, en síðasti sigur Þórs gegn Selfossi í deildinni kom 2018, en þá vann Þór 2-1 á Þórsvellinum og 5-3 á Selfossi. Selfoss féll úr deildinni það ár og liðin mættust ekki í Íslandsmótinu árin 2019 og 2020.“