Fyrstu mörk Bjarna og Jakobs í efstu deild
KA-menn sigruðu Akurnesinga 3:0 í dag í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni, á Akureyrarvelli (Greifavellinum).
Bjarni Aðalsteinsson gerði fyrsta markið og Jakob Snær Árnason það næsta, bæði í fyrri hálfleik. Þetta voru söguleg mörk því hvorugur hafði áður skorað í efstu deild. Þetta var 39. leikurinn þar sem Bjarni kemur við sögu í efstu deild, en sá sjötti hjá Jakobi Snæ. Hann kom til KA frá Þór í lok júlí. Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði þriðja markið beint úr aukaspyrnu í seinni hálfleik.
KA-menn höfðu mikla yfirburði í fyrri hálfleik, sá seinni var í meira jafnvægi en sigurinn mjög sanngjarn, þótt Skagamenn hafi reyndar fengið afar góð færi. Bæði voru þeir miklir klaufar og Steinþór Már Auðunsson, markmaður KA, varð tvisvar meistaralega. Þess verður og að geta að tvö marka KA komu eftir ótrúleg mistök Árna Marinós Einarssonar markvarðar ÍA. Sérstaklega var þriðja markið grátlegt fyrir þennan unga markmann.
Umferðinni lauk í kvöld með því að HK vann Keflavík 1:0, Víkingur vann FH 2:1 á útivelli og fór stundarkorn á toppinn, þangað til Breiðablik tók Fylki í kennslustund og vann 7:0. Blikarnir skutust þá á toppinn á ný.
Þrjár umferðir eru eftir og staða efstu liða svona - leikir og stig:
- Breiðablik ... 19 41
- Víkingur ....... 19 39
- Valur ............... 19 36
- KR .................... 19 35
- KA .................... 19 33
- FH .................... 19 26
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna í leik KA og ÍA