Fótbolti, handbolti og körfubolti í dag
![](/static/news/lg/ithrottir-15.02.2025.jpg)
Fótboltinn verður áberandi hjá íþróttaliðum Akureyringa í dag. Tveir leikir í Boganum, heimaleikir hjá karlaliðum KA og Þórs, og einn á útivelli hjá Þór/KA. En þar með er ekki öll sagan sögð því handbolti og körfubolti eru einnig á dagskrá dagsins. Heimaleikur hjá Þór í handbolta karla og körfubolta kvenna og útileikur hjá KA/Þór í handboltanum.
LAUGARDAGUR – Fótbolti, handbolti og körfubolti
Fótboltinn verður áberandi, tveir karlaleikir í A-deild Lengjubikarsins fara fram í Boganum þar sem Akureyrarliðin taka á móti Kópavogsliðum. Fyrst eru það Bestudeildarliðin KA og Breiðablik sem leiða saman hesta sína og svo Lengjudeildarlið Þórs og HK strax á eftir. KA er í 2. sæti síns riðils með fjögur stig eftir tvo leiki, en Þórsarar eru í neðsta sæti síns riðils eftir tap í fyrsta leik.
- A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu, riðill 2
Boginn kl. 13
KA - Breiðablik - A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu, riðill 3
Boginn kl. 15
Þór - HK
Einnig er á dagskrá útileikur í Lengjubikarnum því Þór/KA mætir Þrótti í Laugardalnum í öðrum leik sínum í A-deild Lengjubikars kvenna. Bæði lið unnu stóra sigra í fyrstu umferðinni, Þór/KA er í 1. sæti riðilsins eftir 9-0 sigur á Tindastóli og Þróttur í 2. sæti eftir 7-1 sigur á Fylki.
- A-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu, riðill 1
AVIS-völlurinn í Laugardal kl. 15
Þróttur - Þór/KA
- - -
Handbolti er líka á dagskrá í dag, bæði heima og að heiman. Þórsarar taka á móti Haukum-2 og mega alls ekki við því að misstíga sig eftir tap í síðustu umferð á Selfossi. Selfyssingar tóku toppsætið með sigrinum, hafa 20 stig. Þórsarar eru með 18 stig, en eiga leik til góða.
- Grill 66 deild karla í handknattleik
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 15
Þór - Haukar2
Þar sem Þórsarar eru með betri árangur í innbyrðis viðureignum gegn Selfossi myndi það nægja þeim að enda jafnir Selfyssingum að stigum. Sigur í þeim leikjum sem eftir eru myndi því tryggja sæti í efstu deild. Enn eru þó nokkrir leikir eftir, fimm leikir hjá Þórsurum og fjórir hjá Selfyssingum. Þórsarar eiga meðal annars eftir að mæta Herði á Ísafirði og Selfyssingar eiga meðal annars eftir að mæta Víkingum, sem eru í 3. sæti deildarinnar, aðeins tveimur stigum á eftir Þór.
- - -
Fátt virðist geta komið í veg fyrir að kvennalið KA/Þórs í handknattleik fari beint aftur upp í efstu deild eftir fall síðastliðið vor. KA/Þór er enn taplaust á toppnum, hefur unnið 12 af 14 leikjum sínum í deildinni og gert tvö jafntefli. Eftir að Afturelding tapaði fyrir Víkingi í gærkvöld er ljóst að ef KA/Þór vinnur í dag er deildarmeistaratitillinn í höfn og þar með sæti í Olísdeildinni að nýju.
- Grill 66 deild kvenna í handknattleik
Kaplakriki í Hafnarfirði kl. 15
FH - KA/Þór
Fyrir leikinn er KA/Þór í toppsætinu, eins og áður sagði, en FH er í 7. sæti deildarinnar með 11 stig.
- - -
Keppni í efstu deild Íslandsmótsins í körfuknattleik kvenna, Bónusdeildinni, hefst að nýju um helgina eftir landsleikjahlé. Tvær úr Þórsliðinu, þær Eva Wium Elíasdóttir og Esther Fokke, voru í verkefnum með sínum landsliðum, en aðrar hafa fengið góða hvíld frá kappleikjum frá 28. janúar þegar Þórsliðið spilaði síðast.
- Bónusdeild kvenna í körfuknattleik
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 18:15
Þór - Stjarnan
Þórsliðið er enn taplaust á heimavelli á leiktíðinni, en þetta er síðasti heimaleikur liðsins í deildinni fyrir tvískiptingu. Þór og Stjarnan komu saman upp úr 1. deildinni og hafa marga hildi háð í báðum deildum og leikir liðanna oftar en ekki jafnir og spennandi. Þórsliðinu hefur þó gengið betur en Garðbæingum á yfirstandandi tímabili. Þór er í 2. sæti deildarinnar, hefur unnið 12 leiki, en Stjarnan er í 7. sæti með sex sigra.
Þórsarar bættu á dögunum við annarri unglingalandsliðskonu í hópinn þegar félagið samdi við Hönnu Gróu Halldórsdóttur, sem fædd er 2007 og kemur frá Keflavík. Áður hafði félagið samið við Öddu Sigríði Ásmundsdóttur sem kom til félagsins frá Snæfelli. Báðar eru þær ungar og efnilegar og hafa spilað með yngri landsliðum Íslands.