Viðhald hefur ekkert að gera með stuðning
Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Íþróttafélagsins Þórs, undrast svör Andra Teitssonar, formanns Umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar á Akureyri.net í morgun í kjölfar gagnrýni Reimars, sem telur viðhaldi íþróttamannvirkja í bænum verulega ábótavant.
Akureyri.net sagði frá því á miðvikudaginn að stúkan á Þórsvellinum læki enn eina ferðina og nú einnig Boginn. Andri sagði í morgun að viðhaldi væri sinnt eins og kostur væri – hér má sjá svör hans.
„Umhverfis og mannvirkjasvið er búið að vita af lekanum í Boganum síðan snemma í haust þannig að ekki verður brugðist hratt og vel við því vandamáli, eins og Andri segir í viðtalinu,“ segir Reimar. „Fyrst að viðhald var trassað þá er vandamálið orðið svo mikið að það kostar tugi milljóna að gera við þetta en nú er engir peningar til í það verk er mér sagt.“
Varðandi stúkuna á Þórsvellinum segist Reimar ekki sérfræðingur í því hvað best sé að gera til að koma í veg fyrir að hún leki, „en þeir fagmenn í þessum efnum sem ég hef rætt við fullyrða að lekinn yrði úr sögunni ef þak yrði sett á stúkuna. Forvitnilegt væri að vita hvort gert sé ráð fyrir að stúka sem reisa á í bænum á næstu árum eigi að vera lokuð svo hún leki ekki.“
Reimar gagnrýndi í viðtalinu á Akureyri.net á miðvikudaginn að íþróttamannvirki í bænum séu oft ekki kláruð og viðhaldi heldur ekki sinnt. Andri Teitsson segir að að viðhaldi sé sinnt „eins og kostur er“ eins og fram kemur að ofan, og sífellt sé unnið að uppbyggingu nýrra mannvirkja. Nú sé einmitt mikið í gangi eða í farvatninu. „Ég gagnrýndi alls ekki að byggt væri upp. Það, að viðhaldi íþróttamannvirkja sé ábótavant, hefur ekkert að gera með það að vel sé stutt við íþróttir á Akureyri,“ segir Reimar Helgason.