Fara í efni
Fréttir

Verkalýðsforingi sker upp herör gegn bænum

Anna Júlíusdóttir, formaður verkalýðsfélagsins Einingar - Iðju, gagnrýnir harðlega breytingar á leikskólagjöldum á Akureyri sem nýlega voru samþykktar og taka gildi frá 1. september. Anna segir breytingarnar munu hafa veruleg áhrif á fjárhag margra barnafjölskyldna, sérstaklega þeirra tekjulægstu, og krefst þess að ákvörðunin verði endurskoðuð.

Þetta kemur fram í grein Önnu – bréfi til Akureyringa – sem birtist á Akureyri.net í morgun.

Anna segir verkalýðsfélagið reiðubúið til frekari aðgerða og hvetur alla Akureyringa til að láta í sér heyra.

Hún segir þetta staðreyndir málsins:

  • Afsláttarprósenta lækkar úr 75% í 62,5% fyrir lægsta tekjuhópinn.
  • Tekjulægstu foreldrar munu greiða 4.744 kr. meira á mánuði fyrir 8,5 klst. vistun.
  • Þetta er 50% hækkun á greiðslum, úr 9.487 kr. í 14.231 kr. á mánuði.
  • Fyrir marga í lægsta tekjuhópnum gæti fimmtungur árlegrar launahækkunar farið í aukinn leikskólakostnað.

Anna gagnrýnir í greininni forgangsröðun hjá Akureyrarbæ. Mikilvægt sé að bæta íþróttaaðstöðu en það veki spurningar að á sama tíma og auknar byrðar séu lagðar á barnafjölskyldur með hækkun leikskólagjalda séu samþykktir kostnaðarsamir samningar um uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Smellið hér til að lesa greina Önnu Júlíusdóttur