Safna fé svo fjölskylda frá Venesúela getið snúið aftur
Um þessar mundir stendur yfir söfnun til styrktar fjölskyldu frá Venúsúela sem send var frá Akureyri til heimalandsins í ágúst eftir að umsókn þeirra um vernd var hafnað. Markmiðið með söfnunni er að safna fyrir flugfari svo fjölskyldan geti sameinast á Íslandi á ný en elstu fjölskyldumeðlimirnir eru allir komnir með atvinnu á Akureyri.
Það eru tveir starfsmenn Hjálpræðishersins á Akureyri, Herdís Helgadóttir og Lára Ósk Hlynsdóttir, sem standa fyrir söfnuninni en þær hafa einnig verið að aðstoða fjölskylduna varðandi atvinnuleyfi hér á landi. Um síðustu helgi stóðu þær fyrir bingói til styrktar fjölskyldunni. Þar söfnuðust 240 þúsund krónur en betur má ef duga skal. „Kostnaður við umsókn og flugmiða er um 1,5 milljón króna svo við verðum að safna meira. Við höfum stofnað styrktarreikning sem hægt er að leggja inn á svo við getum hjálpað þeim að komast heim. Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Lára.
Marcela, sem er 14 ára, æfði blak með liði KA og eldri systir hennar er einnig efnileg í íþróttinni.
Blakstelpur hjá KA
Um er að ræða sex manna fjölskyldu frá Venúsúela sem búin var að koma sér vel fyrir á Akureyri þegar umsókn þeirra um vernd var hafnað og þau því send aftur til heimalandsins í ágúst. Fjölskyldan samanstendur af hjónunum Mario Rangel og Alba Saez en saman eiga þau soninn Marcelo, sem er tvítugur, og dæturnar Marcelys og Marcela sem eru 15 og 14 ára. Einnig á Mario dótturina Haysmar sem er 21 árs. Yngri stelpurnar voru nemendur í Brekkuskóla síðasta vetur og æfðu blak hjá KA. Eldri krakkarnir voru báðir í námi í VMA og foreldrarnir sinntu ýmsum verkefnum fyrir Hjálpræðisherinn. M.a. sáu þau að stórum hluta um matarúthlutun auk þess að sinna lykilhlutverkum í Hertex versluninni. Þegar ljóst var að umsókn þeirra um vernd var hafnað ákvað Alba að fara ein til Venúsúela með börnin en eiginmaðurinn Mario er fastur hér á landi í augnablikinu þar sem vegabréfið hans er útrunnið og hann þarf að fara fyrst til Finnlands til að endurnýja það þar. Óvíst er hvenær eða hvort hann verður sendur þangað.
Ég er auðvitað hrædd um líf Ölbu og barnanna í Venúsúela, þau geta verið handtekin þar hvenær sem er. Fjölskyldan flúði upphaflega frá heimalandinu vegna hótana um fangelsisvist þar sem Mario, sem starfaði sem lögregluþjónn þar í landi, skrifaði undir vantraustsyfirlýsingu á sitjandi forseta upp úr aldamótum. Síðan þá hefur hann átt erfitt uppdráttar í samfélaginu.
Barngóðar systur. Hér eru þær Marcela (t.h) og Marcelyn (t.v) með dætur þeirra Láru og Herdísar sem standa að söfnuninni fyrir fjölskylduna.
Í góðum félagsskap á sjálfboðaliðakvöldi hjá Hjálpræðishernum á Akureyri.
Flúðu heimalandið vegna hótana
„Ég er auðvitað hrædd um líf Ölbu og barnanna í Venúsúela, þau geta verið handtekin þar hvenær sem er. Fjölskyldan flúði upphaflega frá heimalandinu vegna hótana um fangelsisvist þar sem Mario, sem starfaði sem lögregluþjónn þar í landi, skrifaði undir vantraustsyfirlýsingu á sitjandi forseta upp úr aldamótum. Síðan þá hefur hann átt erfitt uppdráttar í samfélaginu. Og nú þegar þau eru búin að flýja þaðan einu sinni er litið á þau sem föðurlandssvikara og við því er þung refsing. Ef Mario verður sendur út verður hann að öllum líkindum strax fangelsaður. Íslensk stjórnvöld vita alveg hvernig ástandið er í Venúsúela en blikka ekki augunum með að senda fólk þangað, líka börn,“ segir Lára sem segist hafa verið mjög sár með niðurstöðuna. Henni og samstarfsfólki hennar og sjálfboðaliðum hjá Hjálpræðishernum og Hertex á Akureyri var farið að þykja mjög vænt um fjölskylduna sem hún segir að sé afar gefandi fólk, hjálpsamt og jákvætt. Herdís tekur undir þetta og segir þau hjónin, ásamt öðrum hjónum frá Venúsúela sem eru komin með dvalarleyfi hér á landi, hafa komið eins og sólargeisla inn í líf þeirra fyrir um ári síðan. „Ég var hoppandi um á hækjum eftir ristarbrot og Lára var bara í litlu hlutastarfi með fæðingarorlofi. Þau komu inn á Hjálpræðisher og í stað þess að segja „láttu vita ef þig vantar eitthvað“ þá horfðu þau beint í augun á mér og spurðu „hvað er það sem þú þarft hjálp við núna?“ Það segir margt um þau sem einstaklinga að á innan við ári voru þau búin að tengjast samfélaginu hér einstaklega vel og eignast sterkt tengslanet.“
Þau vilja bara vera hérna og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Þau voru virkilega farin að finna sig hér á Akureyri, búin að eignast hér vini og farin að læra íslensku. Það er það grátlega við þetta. Við viljum því gera allt til þess að reyna að hjálpa þeim að koma hingað aftur varanlega.
Hjónin Mario og Alba, ásamt dætrunum í mat hjá íslensku vinafólki á Akureyri, þeim Kathlene og Valgarði. Á innan við ári var fjölskyldan komin vel inn í samfélagið á Akureyri og búin að eignast sterkt tengslanet í bænum.
Störf bíða fjölskyldunnar á Akureyri
„Alba er með háskólamenntun og mikla reynslu á sviði viðskipta og rekstrar og hér bíður hennar starf sem lagerstjóri hjá Hertex. Þá eru Mario og Haysmar líka komin með störf hér,“ segir Lára en eftir þriggja mánaða dvöl úti getur fjölskyldan aftur sótt um dvalarleyfi hér á landi og nú á grundvelli sérfræðiþekkingar Ölbu. Herdís og Lára hafa verið að aðstoða fjölskylduna með pappírsvinnuna en enn vantar fjárstuðning til þess að koma þeim aftur til landsins. „Þau vilja bara vera hérna og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Þau voru virkilega farin að finna sig hér á Akureyri, búin að eignast hér vini og farin að læra íslensku. Það er það grátlega við þetta. Við viljum því gera allt til þess að reyna að hjálpa þeim að koma hingað aftur varanlega,“ segir Lára Ósk Hlynsdóttir, starfsmaður Hjálpræðishersins á Akureyri og vinkona fjölskyldunnar.
- Þeir sem vilja leggja söfnunni lið geta lagt inn á styrktarreikning sem stofnaður hefur verið fyrir Mario, Ölbu og börn:
Bankareikningur: 0370-22-095478 , kt: 070295-3269. (Reikningurinn er á nafni Láru Óskar Hlynsdóttur)
Lára og Herdís, sem starfa hjá Hjálpræðishernum á Akureyri, standa á bak við söfnunina fyrir Mario, Ölbu og börn, en fjölskyldan hafði mikil áhrif á þær.
Alba á góðri stundu í verslun Hertex ásamt starfsmönnunum Láru og Herdísi Haraldsdóttur. Ölbu bíður lagerstjórastarf í Hertex á Akureyri.
Fjölskyldan á góðri stundu. Á myndina vantar dótturina Haysmar.