Fara í efni
Fréttir

Rugluð tilhugsun að þessi umferð bruni hér í gegn

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

„Við þekkjum þessa umferð hérna og í hvert skipti sem mín börn fara út segi ég: passaðu þig á bílunum. Þetta eru ekki mín börn sem munu verða fyrir bíl. Þetta er kannski ykkar, þetta gæti verið frændi þinn eða bróðir þinn, fólk sem þekkir ekki aðstæður hérna,“ sagði Aðalsteinn Svanur Hjelm í samtali við Akureyri.net þegar við heyrðum í honum um umferðaröryggismál í Oddeyrargötunni.

Í pistli á Facebook-síðu sinni segir Aðalsteinn frá því að hann hafi sent póst til Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra og Andra Teitssonar, formanns umhverfis- og mannvirkjaráðs, „til að minna kjörna fulltrúa á málið,“ eins og segir í pistlinum.

Þegar 43 ár verða liðin frá mótmælunum sem nefnd voru í umfjöllun gærdagsins verður mögulega komin önnur og öruggari mynd á götuna. Það má að minnsta kosti ráða af póstinum sem Aðalsteinn sendi þeim Ásthildi og Andra þar sem hann vísar í samtöl sín við þau og telur upp væntanlegar framkvæmdir á árinu og spyr hvort komin sé einhver mynd á þau áform.

„Samkvæmt okkar samskiptum verður ráðist í eftirfarandi aðgerðir í Oddeyrargötu á þessu ári:

  • Hraðahindrun kemur neðan við (norðan við) gatnamót Oddeyrargötu og Hamarstígs.
  • Hraðahindrun kemur neðan við (norðan við) gatnamót Oddagötu og Oddeyrargötu.
  • Skerpt verður á fyrirliggjandi hraðahindrunum við gatnamót Þingvallastrætis og Oddeyrargötu og hins vegar við gatnamót Bjarmastígs og Oddeyrargötu en malbikað hefur verið upp í þá síðarnefndu sem gerði hana nánast gagnslausa.
  • Gatnamót Oddeyrargötu og Brekkugötu verða hækkuð upp í heild sinni og merkt.
  • Göngustígurinn upp Oddeyrargötu breikkaður þar sem gríðarleg aukning hefur orðið á fótgangandi og hjólandi vegfarendum, börnum, fullorðnum og útlendingum. Gatan er aðal umferðaræðin fyrir fótgangandi upp í sundlaug, skólana og hótelið.“

Aðalsteinn segir nauðsynlegt að minna bæjaryfirvöld á málið. „Ég veit að það eru rosalega margir sem hafa fylgst með þessu og við fáum svo mikinn stuðning, eins og ég benti á í pistlinum. En málið er að það þarf alltaf að ná til eyrna allra og það þarf alltaf að vera að minna endalaust á þetta. Annars bara fjarar þetta út,“ segir hann. Hann bendir á að verið sé að fjölga íbúðum, byggja upp heilu hverfin, en innviðirnir í gömlu hverfunum séu löngu sprungnir. Nú séu líka uppi áform um að þétta byggðina og nefnir Sjallareitinn og Borgarbíóreitinn, íbúðum fjölgi á þessu svæði og „þetta er allt umferð sem augljóslega á að bruna hérna í gegn og það er alveg rugluð tilhugsun.“

Hámarksþyngd ökutækja er 12 tonn

Aðalsteinn segir samstöðuna mikla í Oddeyrargötusamtökunum, unnið sé lýðræðislega og málefnalega. „Við höfum bara fengið hrós og ég hef meira að segja fengið rauðvínsflösku fyrir baráttuna,“ segir hann. Það er svo kannski líka örlítil kaldhæðni í því þar sem staðsetning Vínbúðarinnar neðst við Oddeyrargötuna, á horni Hólagötu, er auðvitað ein af mörgum ástæðum fyrir umferðarþunganum um

Oddeyrargötuna. Hann kveðst meira að segja hafa haft samband við aðstoðarframkvæmdastjóra Vínbúðarinnar og einn af forsvarsmönnum Glerártorgs. „Ég hef heyrt í öllum, ég er að pönkast hérna í Vínbúðinni, ég kom þeim saman um að Vínbúðin færi héðan. Þetta er eina vínbúðin sem þjónar 20 þúsund manna byggðakjarna ofan í íbúðahverfinu okkar. Þá fór sá bolti eitthvað af stað. Við ætlum bara að eigna okkur það að þeir ætla þó að minnsta kosti að opna aðra búð hérna,“ segir hann.

Aðalsteinn hefur heyrt í fleirum, til dæmis hjá SBA, því það er ekki aðeins fólksbílaumferð sem angrar íbúana. „Við erum að tala um vörubíla og það eru fullar rútur af ferðamönnum og menn aka hérna á 50, 60, 70,“ og heyrist augljóslega á máli Aðalsteins að þetta er honum hjartans mál. „Neðst í götunni stendur að það sé 12 tonna heildarþungi á farartækjum sem mega fara hérna um götuna. Það er bara samkvæmt lögum. Ég er búinn að benda lögreglunni á það. Ég er búinn að benda SBA á þetta. Það eru einnig gröfur hérna sem keyra um götuna og það eru vörubílar sem eiga ekkert erindi hérna inn í þetta hverfi og það nötra hérna öll húsin. Það er alveg tilgangur með því að takmarka þunga ökutækja því þegar hver svona bíll er að aka hérna þá þrýstist gatan bara inn í garðana og veggir skekkjast. Þetta er ekki einhver af 

því bara regla. Það hefur ekkert að segja. Það þarf fýsískt að þrengja að umferð um hana. Ég er ekki að ásaka vörubílstjóra eða aðra bílstjóra almennt um að vera hálfvitar. Gatan er bara að senda vitlaus skilaboð,“ segir hann. Hann er að benda á að gatan sjálf eins og hún er hönnuð bjóði upp á þetta ástand. Úr því þurfi að bæta.

Á ekki að vera tengibraut milli stofnbrauta

„Þó gatan sé skilgreind sem íbúðargata þá er hún þannig opin að hún virkar eins og tengibraut á milli stofnbrauta, sem hún á alls ekki að vera. Fyrst og fremst er þetta íbúðargata og skilgreind þannig, en það sem einkennir hana er að það er bara gangstígur öðru megin,“ segir hann og því ekki hægt að ganga upp eða niður með götunni austan megin. „Fyrir okkur hérna sem erum austan megin, þar er enginn gangstígur og við þurfum að stíga inn í þessa umferð. Börnin okkar, þegar þau fara í skóla og tómstundir, þau þurfa að skjótast á milli þessara bíla. Bílar hafa verið að mælast á 80 plús km hraða hérna í gegnum þessa þröngu götu. Og sérstaklega ofarlega í götunni þar sem er rétt svo að bílar geti mæst.“

Aðalsteinn tekur þó fram í spjalli við Akureyri.net að hann sé ekki að saka bílstjóra sérstaklega um að vera illa innrættir eða illa meinandi. „Það eru engin skilaboð í götunni sem segja að þú eigir að hægja á þér. Við höfum stundum hringt í lögregluna og hún er hérna kannski í hálftíma eða þrjú korter og þeir stoppa alveg fimm bíla,“ segir hann og bendir á að þar sé um að ræða venjulegt fólk í umferðinni.

Það eru til gögn um hraðamælingar í Oddeyrargötunni. „Þetta er á vegum bæjarins. Það hafa verið settir upp mælar hérna af og til í gegnum árin, og sérstaklega eftir að ég byrjaði og við hérna, á þessari baráttu. Við erum að ganga mjög hart að bænum núna. Við höfum tekið fundi með bæjarstjóra, eiginlega öllum þeim sem hafa með þessi mál að gera, sent tölvupósta. Við höfum notað allar boðskipta- og boðleiðir til að ná til þessara einstaklinga. Þeir sýna einhvern veginn fullan skilning á þessu, en svo bara stendur á úrbótum.

Bíll inn í garði, bíll inn í stofu, rafmagnskassi keyrður niður og stungið af

Veistu til þess að komið hafi til tals að loka hreinlega Oddeyrargötunni á einhverjum hentugum stað?

„Ég er rosalega hrifinn af þeirri hugmynd, en auðvitað eru hugmyndir til úrlausna jafn margar og við erum mörg í götunni,“ segir Aðalsteinn og bendir á Gránufélagsgötuna austan Glerárgötu sem hliðstæðu, en henni hafi verið lokað vegna þess hve mikil umferð var þar í gegn. Einnig má benda á lokun Hólabrautar við Akureyrarvöll, en mögulega aðrar forsendur þar einnig að baki.

„Mér finnst það bara alls ekki fjarstæðukennd hugmynd og við höfum alveg rætt það innan okkar raða. Það eru ekki tómir mínusar við að vera við svona braut, þeir ryðja hérna fyrst og það eru einhverjir plúsar, en það bara opnar fyrir þessa biluðu umferð sem er hérna. Einstefnur hafa einnig verið nefndar, þrengingar hvers konar og það sem við erum sammála um, hraðahindranir og betri merkingar. Umferðaröryggisáætlunin tekur svo á málinu í stærra samhengi,“ segir hann.

Aðalsteinn nefnir dæmi um óhöpp sem hafa orðið í götunni, en hann fær reglulega sögur um slíkt vegna baráttu sinnar í þessu máli. Bílar hafi til dæmis endað inni í görðum og nýlega var honum sagt frá því þegar bíll endaði inni í stofu hjá einum íbúanum. „Það hefur verið keyrt utan í rafmagnskassa hjá okkur sem tók rafmagnið af hverfinu, og stungið af í þokkabót,“ segir Aðalsteinn og nefnir hættuna af rafstraumnum í kassanum, „og krakkarnir þarna að leik í kring. Það eru allar sögur alveg bilaðar. Það versta við þetta allt saman – við reynum að nálgast þetta með mjög málefnalegum hætti, en við fáum bara frekar rýr og óræð svör,“ segir Aðalsteinn, en tekur þó fram að stjórnendur bæjarins hafi sýnt þessu áhuga og til dæmis á opnum fundi í vetur þar sem bæjarstjórinn og formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs hafi verið og boðið upp á fyrirspurnir. „Þar settum við inn fyrirspurn, hvað ætlið þið að gera í okkar götu?“ Aðalsteinn hafði þá verið í samskiptum við Andra Teitsson, formann umhverfis- og mannvirkjaráðs og vissi að hann sýndi þessu áhuga. Hann hafi þar staðfest að settar yrðu tvær hraðahindranir í götuna til að byrja með.