Nýtt 30.000 króna gjald í líkhúsinu
Um mánaðamótin tekur Útfararþjónusta Akureyrar ehf. við rekstri líkhússins á Naustahöfða og á sama tíma verður byrjað að innheimta gjald fyrir að geyma lík í húsinu. Það hefur verið ókeypis hingað til. Grunngjald, fyrir vistun líks í allt að 15 daga, verður 30.000 krónur og að þeim tíma liðnum bætist við gjald fyrir hvern dag umfram það ofan á grunngjaldið.
Eins og Akureyri.net hefur áður fjallað ítarlega um er Kirkjugörðum Akureyrar, sem er opinbert fyrirtæki, óheimilt að innheimta líkhúsgjald. Þannig vill hins vegar til að einkahlutafélagið Útfararþjónusta Akureyrar, sem nú tekur við rekstrinum og er að fullu í eigu Kirkjugarða Akureyrar, má innheimta slíkt gjald.
GJÖLD FRÁ 1. DESEMBER
- Grunngjald, vistun í líkhúsi í allt að 15 daga – 30.000 kr.
- Daggjald eftir 15 daga – 2.500 kr. á dag
- Daggjald eftir 30 daga – 4.500 kr. á dag
Smári Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar, sagði á sínum tíma að enginn bæri ábyrgð á rekstri líkhúsa. „Frá því heilbrigðiskerfið gefur út dánarvottorð þar til kirkjugarður tekur við hinum látna er algjört gat í kerfinu; engum ber að sjá um ferlið frá dánarvottorði til greftrunar,“ sagði hann þá. Ekkert hefur breyst og stjórn Kirkjugarða Akureyrar hefur því ákveðið að draga sig út úr rekstri líkhússins.
„Hið opinbera hefur sagt að það ætli ekki að borga rekstur líkhúsa. Samkvæmt samingi við ríkið fá kirkjugarðar framlög til að grafa fólk og hirða garðana en ekki krónu í neitt annað,“ segir Smári. „Gjaldið sem Útfararþjónustan fer nú að innheimta mun aldrei dekka rekstrarkostnað og afskriftir af þessu glæsilega húsi á Naustahöfðanum en það verður til þess að við höldum rekstrinum áfram,“ segir hann.
Vefur Útfararþjónustu Akureyrar
Fréttir Akureyri.net:
- Nóvember 2023 – Langar þig til að eignast líkhúsið?
- Maí 2024 – Líkhúsinu verður mjög líklega lokað