Fara í efni
Fréttir

Nóg atvinnuhúsnæði en minni íbúðir vantar

Nóg er til af nýju atvinnuhúsnæði á Akureyri og nágrenni um þessar mundir. Enn eru t.d. mörg bil í þessum húsum að Lækjarvöllum í Hörgársveit óseld.

Að undanförnu hefur mikið verið byggt af atvinnuhúsnæði á Akureyri, en minni íbúðir sárvantar. Samkvæmt Friðriki Sigþórssyni, fasteignasala hjá FS fasteignum, er þróunin farin að leiða til þess að fólk er jafnvel farið að búa í atvinnuhúsnæði. 

„Það er mikið af nýju atvinnuhúsnæði í boði núna, bæði rétt fyrir utan bæinn og í nýjum hverfum eins og Týsnesinu og í Glerárhverfi,“ segir Friðrik. „Og það er enn verið að leggja grunn að nýjum byggingum, jafnvel þó að mörg atvinnuhúsnæði séu þegar óseld.“ Hann bendir á að þetta sé nokkuð sérstakt þar sem fyrir ekki svo löngu síðan var mikil eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði í bænum.„Það er stutt síðan ekki var hægt að fá neitt nýtt atvinnuhúsnæði í bænum, en nú er það orðið þannig að mörg atvinnubil standa auð,” segir Friðrik. Hann veltir fyrir sér hvort það stafi af háum fasteignagjöldum, en að hans sögn eru fasteignagjöld fyrir lítil atvinnubil farin að slaga upp í fasteignagjöld af einbýlishúsum. Segir hann þessa verðlagningu ósanngjarna þar sem margir einstaklingar vilji kaupa sér atvinnubil fyrir ýmsa tómstundaiðkun eða nýta sem geymslu undir hjólhýsi, vélsleða og annað, sem flokkast ekki sem atvinnustarfsemi.

Friðrik hjá FS eignum (t.v) og Tryggvi hjá Eignaveri (t.h). 

 

Of hátt verð miðað við gæði

Tryggvi Gunnarsson, fasteignasali hjá Eignaveri, tekur undir þetta með fasteignagjöldin, þau séu vissulega há. Segir hann að þó  mikið hafi verið byggt af nýju atvinnuhúsnæði í bænum undanfarið, þá skorti ekki áhugann á slíku húsnæði hjá íbúum bæjarins. Hins vegar sé verðið einfaldlega of hátt á þessum bilum. „Margir geta vel hugsað sér að eignast atvinnubil undir tækin sín en fólk hugsar sig tvisvar um þegar verðmiðinn er í kringum 23 milljónir og þá á kannski eftir að setja upp klósett og fá leyfi fyrir millilofti. Verðið á þessum bilum er bara orðið of hátt miðað við gæðin.”

Sárvantar minni íbúðir

Á sama tíma og atvinnuhúsnæði er í ofgnótt, vantar verulega minni íbúðir á Akureyri. „Það er nánast ómögulegt að fá tveggja herbergja íbúðir í bænum. Það sem byggt er núna eru helst stórar íbúðir með bílakjöllurum, en það er ekki það sem almenningur er að leita að. Fólk vill ódýrari íbúðir en bílakjallararnir hífa verðið upp,“ segir Friðrik. Hann bendir á að eftirspurnin eftir minni íbúðum sé gríðarleg. „Þegar tveggja herbergja íbúðir koma á markað, þá seljast þær strax. Það er mikil eftirspurn frá ungu fólki og einnig frá fólki sem er að flytja til bæjarins, til dæmis læknum og hjúkrunarfræðingum sem eru að koma hingað til starfa,“ segir hann.

Það þarf líka að huga að venjulegu fólki sem þarf hagkvæmt húsnæði til að búa í. Ef það gerist ekki, þá finnst mér líklegt að fleiri munu leita í atvinnuhúsnæði til búsetu, því nóg er af því.

Atvinnuhúsnæði nýtt til búsetu

Samkvæmt Friðriki hefur þessi þróun leitt til þess að fólk er jafnvel farið að búa í atvinnuhúsnæði, sérstaklega í þeim byggingum sem upphaflega voru hannaðar sem blandað húsnæði. „Við erum farin að sjá dæmi um það að fólk flytji inn í atvinnuhúsnæði, jafnvel þó það sé ekki skráð sem íbúðarhúsnæði,“ segir Friðrik sem hefur áhyggjur af því að þetta gæti aukist en margar þessar eignir standast ekki kröfur um brunavarnir og önnur öryggisatriði sem þarf að hafa í íbúðarhúsnæði. „Það þarf að skoða þetta betur og kannski einfalda ferlið þannig að hægt sé að breyta atvinnuhúsnæði yfir í íbúðarhúsnæði, sérstaklega í þeim tilfellum þar sem húsnæðið er í raun þegar notað sem íbúðir. Við sjáum dæmi um slíkt erlendis og í gömlum iðnaðarhverfum á höfuðborgarsvæðinu, þar hafa reglugerðir verið aðlagaðar að nýrri notkun. Það væri hægt að gera slíkt hið sama á Akureyri í ákveðnum tilfellum t.d. á Oddeyrinni.“

Tryggvi vonar að þróunin verði ekki sú að fólk fari í stórum stíl að nýta tóm iðnaðarbil á Lækjarvöllum eða í Týsnesinu til búsetu, enda segir hann að slík búseta sé ekki boðleg. „Ég segi bara það sem ég hef sagt svo oft áður: Af hverju heldur Akureyrarbær ekki samráðsfund með fólki sem er að vinna í þessum bransa og veit hvar þörfin er mest hjá íbúum bæjarins? Fasteignasalar á Akureyri eru með gríðarlega reynslu og þekkingu á markaðinum. Það væri nú kannski bara allt í lagi að tala við okkur og leyfa okkur að vera með í samtalinu og koma með hugmyndir. Við vitum a.m.k. hvað vantar og hvað fólk er að biðja um.“

Bregðast þarf við í takt við markaðinn

Friðrik telur að bregðast þurfi hraðar við því sem markaðurinn kallar eftir. „Það er augljóst að það vantar stefnumótun í þessum málum. Ef eftirspurnin er eftir litlum íbúðum, af hverju er þá ekki verið að byggja þær? Og ef atvinnuhúsnæði hentar ekki fyrir upprunalega notkun er þá ekki kjörið að breyta því í íbúðarhúsnæði á einfaldan hátt? Það er einfaldlega ekki nóg að byggja lúxusíbúðir með bílakjöllurum. Það þarf líka að huga að venjulegu fólki sem þarf hagkvæmt húsnæði til að búa í. Ef það gerist ekki, þá finnst mér líklegt að fleiri muni leita í atvinnuhúsnæði til búsetu, því nóg er af því,“ segir hann að lokum.