Lokun, einstefna eða eitthvað annað?
„Ég hef reynt að setja mig mjög vel inn í málin við Oddeyrargötu vegna þessara ábendinga frá íbúum, ég hef til dæmis gengið þar um og tekið ljósmyndir til að glöggva mig á stöðunni og reyna að hugsa upp leiðir til úrbóta,“ segir Andri Teitsson, formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar þegar hann er inntur svara varðandi umferðaröryggi í Oddeyrargötunni.
Síðustu þrjá daga hefur Akureyri.net birt í nokkrum hlutum umfjöllun og viðtal við Aðalstein Svan Hjelm, íbúa við Oddeyrargötu og baráttumann fyrir bættu umferðaröryggi í götunni, en hann hefur meðal annars birt pistil á Facebook með pósti sem hann sendi bæjarstjóra og formanni umhverfis- og mannvirkjaráðs.
- Á FIMMTUDAG – „Ég ætla að bjarga þessu mannslífi“
- Á FÖSTUDAG – Rugluð tilhugsun að þessi umferð bruni hér í gegn
- Í GÆR – Galin aðferðarfræði, engin öryggisáætlun
Gullfiskaminni ökumanna
„Það er ljóst að bílaumferðin er frekar mikil og í einhverjum tilvikum of hröð, miðað við þær aðstæður sem þarna eru, þ.e. að gatan er þröng, hún er brött og að það vantar gangstétt öðru megin á löngum kafla, og að sjónlínur mættu vera betri við gönguþveranir,“ segir Andri við Akureyri.net.
Hann segir stefnt að því að lagfæra gatnamót Oddeyrargötu og Brekkugötu, gera upphækkun og gangbraut yfir Oddeyrargötuna, með góðri lýsingu ásamt gulu blikkandi ljósi. Einnig sé stefnt að því að setja upp hraðaskilti (með bros-/fýlukarli) á ljósastaur við hús nr. 14, sem er vestan megin götunnar. Fáir góðir staðir séu í boði austan megin hennar. Það er þó ekki alveg ljóst að sögn Andra hvort þetta næst á þessu ári.
„Til viðbótar ofangreindu tel ég æskilegt að bæta sjónlínur við gönguþverunina hjá Bjarmastíg (neðri) með því að loka bílastæðinu sem er þar næst ofan við að austanverðu. Ég myndi helst vilja taka af öll bílastæðin að austan frá þessum stað og upp að Hamarstíg, og setja gangstétt að austan. Við þyrftum mögulega að greiða götu íbúa á þessum slóðum sem hafa möguleika á að gera stæði inni á lóð, líka að vestan,“ segir Andri. Hann bendir enn fremur á að persónulega telji hann koma til greina að lækka hámarkshraða í götunni niður í 20 km/klst. og „í fullkomnum heimi myndum við einnig gera gangstétt að austan, neðan við neðri tengingu á Bjarmastíg, en húsin standa þar mjög nálægt götunni og það þyrfti heilmiklar breytingar þar og í nánu samráði við húseigendur.“
Andri segir aðspurður um hvað hafi verið gert í Oddeyrargötunni á undanförnum árum til að auka öryggi vegfarenda að þar hafi leyfilegur hámarkshraði verið lækkaður í 30 km/klst. fyrir um 15 árum, en vissulega virði ekki allir þann hámarkshraða. Varanlegar hraðahindranir hafi verið settar á þremur stöðum, við Brekkugötu, Bjarmastíg og Kaupvangsstræti. „En það er almennt séð viðmiðun að það þurfi einhverja áminningu til ökumanna með svo sem 80 metra millibili til að halda hraðanum alveg niðri. Bendir kannski til að þeir hafi gullfiskaminni, sumir hverjir að minnsta kosti,“ segir Andri.
Lokun Oddeyrargötunnar, einstefna eða eitthvað annað?
Í viðtölunum við Aðalstein Svan hér á Akureyri.net kom meðal annars fram að hann væri mjög hrifinn af þeirri hugmynd að loka hreinlega götunni á hentugum stað. Andri segir þann möguleika ekki hafa verið skoðaðan. „Það kemur alveg til greina að hugleiða það,“ segir hann. „Það væri þá væntanlega neðan við Hamarstíg því lokun ofar myndi trúlega auka umferð um Hamarstíg, sem er brattari og að ýmsu leyti erfiðari viðfangs en Oddeyrargatan.“
Andri segir aðspurður að það hafi hins vegar borist í tal og verið kannað lauslega hvort til greina kæmi að breyta Oddeyrargötunni í einstefnugötu, en þó aldrei skoðað af alvöru. „Líklega væri best að horfa þá á slíka skoðun í stærra samhengi enda viðbúið að umferð myndi aukast, til dæmis á Brekkugötu og Kaupvangsstræti, setja í umferðarmódel til að áætla aukningu umferðar á öðrum stöðum. Allt hefur þetta kosti og galla. Mögulegt er að einstefna niður myndi þýða aukinn hraða, nema með sérstökum mótvægisaðgerðum,“ segir Andri.
„Hún hefur aldrei gleymst“
Aðalsteinn Svan Hjelm fullyrti í viðtali við Akureyri.net að umferðaröryggisáætlun fyrir Akureyri væri ekki til, að hún hefði hreinlega gleymst eftir að tilkynnt var um það af þáverandi bæjarstjóra á fjölmiðlafundi 2009 að búa ætti til slíka áætlun – en um það má meðal annars lesa í frétt á vef Akureyrarbæjar 13. nóvember sama ár.
Andri andmælir þeirri fullyrðingu. „Hún hefur aldrei gleymst og það hefur verið lögð talsverð vinna í ýmsa þætti hennar, svo sem að skoða og laga göngu- og hjólaleiðir barna til og frá skóla. Einnig hefur verið lögð vinna í að kortleggja umferðarhraða í bænum, umferðargreinirinn hefur verið nær samfellt í gangi frá 2008. Umhverfis- og mannvirkjaráð hefur fjallað um mikilvægi þess að ljúka við heildstæða umferðaröryggisáætlun og sérfræðingar okkar hafa verið í sambandi við verkfræðistofu um mögulegt umfang á þeirri vinnu. Skipulagsráð þarf einnig að taka virkan þátt enda liggur þar valdið til að ákvarða umferðarhraða, einstefnur og svo framvegis,“ segir Andri.
Formlega séð má því ef til vill segja að fullyrðing Aðalsteins standist að einhverju leyti því umferðaröryggisáætlun er ekki til sem heildstætt eða formlegt skjal þó unnið hafi verið að ýmsum málum sem eiga heima í slíku plaggi. Hvort hún gleymdist eftir fjölmiðlafundinn 2009 eða ekki skiptir kannski ekki öllu máli, en væntanlega eru íbúar við Oddeyrargötu, Aðalsteinn Svan þar með talinn, og bæjaryfirvöld, Andri Teitsson þar með talinn, sammála um nauðsyn þess að slík formleg og heildstæð áætlun sé til.
Einn segir „úrelt“, annar segir „gagnleg“
Fram kom í viðtölum við Aðalstein Svan að hann teldi 85% regluna svokölluðu vera úrelta og alls ekki eiga við í þéttbýli, hvað þá í götum eins og Oddeyrargötunni. Í þeirri umfjöllun var þessi regla útskýrð frekar.
Aðspurður um þessa reglu segir Andri: „Já, við höfum notað þessa aðferð sem fyrsta tékk á hvort hraði sé of mikill í götu í samanburði við merktan hámarkshraða og teljum það í mörgum tilvikum gagnlegt.“