Fara í efni
Fréttir

Kýrin Edda flytur að heiman – MYNDIR

Edda komin á stall sinn í landi Saurbæjar, steinsnar norðan við Smámunasafn Sverris Hermannssonar í Sólgarði. Listamaðurinn, Beate Stormo, María Pálsdóttir og Finnur Aðalbjörnsson verktaki, virða listaverkið fyrir sér í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kýrin Edda, hið magnaða listaverk Beate Stormo, flutti að heiman í dag – eins og listakonan orðaði það við Akureyri.net. Beate smíðaði kúna á hlaðinu heima í Kristnesi en Finnur Aðalbjörnsson verktaki og hans menn sóttu Eddu í dag og fluttu inn að Saurbæ, þar sem kýrin mun standa um ókomna tíð sem tákn Eyjafjarðarsveitar, þessa mikla mjólkurframleiðsluhéraðs.

Kýrin er um þrír metrar á hæð og fimm á lengd. Á hliðum þessa magnaða járnskúlptúrs er víravirkismynstur og borðar með textum úr ljóðum og sögum um kýr. Það var Ferðamálafélag Eyjafjarðar sem réði Beate, Evrópumeistara og margfaldan Íslandsmeistara í eldsmíði, til að hanna og smíða kúna. 

Akureyri.net fylgdist með Eddu og Beate á þessum merkisdegi, María Pálsdóttir eigandi Hælisins - seturs um sögu berklannna í Kristnesi fylgdist einnig grannt með en hún hefur unnið ötullega að verkefninu ásamt fleirum. 

Aðgengi að Eddu verður mjög gott; útbúinn hefur verið göngustígur frá bílastæðinu við Smámunasafn Sverris Hermannssonar í Sólgarði að hólnum þar sem kýrin stendur, norðan og neðan við Saurbæjarkirkju. Formleg vígsla listaverksins verður síðar í sumar.

Beate Stormo, til vinstri, og María Pálsdóttir bíða spenntar eftir að ferðalag Eddu hefjist á hlaðinu í Kristnesi. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson