Fara í efni
Fréttir

Húsnæði félagsaðstöðu aldraðra ábótavant

Öldungaráð Akureyrar fjallaði fyrir nokkru um öryggismál í kjallaranum í Sölku, félagsaðstöðu eldri borgara á Akureyri í Víðilundi, en fulltrúar Félags eldri borgara á Akureyri (EBAK) hvöttu til þess að vinnueftirlit, heilbrigðisteftirlit og eldvarnareftirlit verði fengin til að gera heildarúttekt á húsnæðinu vegna þeirrar starfsemi sem þar fer fram á vegum Akureyrarbæjar.

Umhverfis- og mannvirkjaráð fjallaði um málið fyrir skömmu og vísaði því til sviðsstjóra umhverfis- og mannvirkjasviðs, til að vinna málið áfram í samstarfi við fræðslu- og lýðheilsusvið. Umhverfis- og mannvirkjasvið þekkir þennan vanda og benti á vankantana þegar starfsemi Punktsins fluttist úr Rósenborg upp í Víðilund 2020. Þá hafi litlar framkvæmdir verið unnar á húsnæðinu í Víðilundi þar sem ekki hafi verið talin þörf á því.

Bent var á vankanta þegar Punkturinn flutti

Í kynningu sem unnin var í tengslum við flutning Punktsins í Víðilund eru útlistaðar þarfir fyrir hinar ýmsu framkvæmdir sem þyrfti að fara í til að bæta aðstöðuna. Þar kom fram í niðurstöðu Sigurðar Gunnarssonar, verkefnastjóra nýframkvæmda hjá umhverfis- og mannvirkjasviði, að frumkostnaðaráætlun sem tæki til fjölgunar bifreiðastæða, skyggnis við aðalinngang, bætts aðgengis, endurbóta á tilteknum rýmum með tilliti til lýsingar, hljóðvistar, loftgæða og öryggis- og aðgengismála, auk annarra atriða sem komu fram í þarfagreiningu væri á bilinu 170-200 milljónir og var þá ekki tekinn með kostnaður við önnur rými en tiltekin voru í þarfagreiningunni. Auk þess væri ekki ljóst hvort leyfi fengist til þessara framkvæmda og hvort þær væru allar mögulegar. Úttekt Sigurðar byggði á þarfagreiningu og tillögum starfshóps á vegum samfélagssviðs. 

Á að vera forgangsmál

Við umfjöllun um málið í umhverfis- og mannvirkjaráði bókuðu Hilda Jana Gísladóttir S-lista, Halla Birgisdóttir Ottesen óflokksbundin og Ólafur Kjartansson V-lista að ljóst væri að húsnæði fyrir félagsaðstöðu aldraðra á Akureyri, ekki síst í Sölku, væri verulega ábótavant varðandi aðgengi, brunamál, bílastæði, loftgæði, snyrtingar og fleira.

Bókun þremenninga er svohljóðandi.

Ljóst er að húsnæði fyrir félagsaðstöðu aldraðra á Akureyri, ekki síst í Sölku er verulega ábótavant, ekki síst er varðar aðgengi, brunamál, bílastæði, loftgæði, snyrtingar og fleira. Auk þess sem löngu tímabært er að stækka félagsaðstöðu Birtu. Það á að vera forgangsmál að bæta félagsaðstöðu eldri borgara, sem um langt skeið hefur verið bent á að sé verulega ábótavant. Þess utan er mikilvægt að meta það hvort að sú ákvörðun að flytja Punktinn upp í Sölku hafi verið ákjósanleg.