Teitur Guðmundsson, forstjóri Heilsuverndar, sem rekur hjúkrunarheimilin Hlíð og Lögmannshlíð á Akureyri fyrir Sjúkratryggingar Íslands, gagnrýnir harðlega að vinna við nauðsynlegar lagfæringar á húsnæði Hlíðar á vegum hins opinbera sé ekki komin í farveg, rúmum tveimur árum eftir að Heilsuvernd tók við rekstrinum „með undirritaða samninga um lagfæringar,“ segir í færslu Teits á Facebook.
Pistilinn tengdi Teitur við tilkynningu á vef Framkvæmdasýslunnar - Ríkiseigna (FSRE) um að skrifstofa stofnunarinnar verði lokuð vegna sumarleyfa frá 24. júlí til 8. ágúst
„Þá vitum við að ekkert gerist í málum fasteigna ríkisins þessar vikur, en það er svosem það sem við upplifum einnig þó skrifstofan og starfssemin sé opin. Við finnum tilfinnanlega fyrir seinkunum á verkefnum sem eru á þeirra vegum í tengslum við fasteignir Heilsuverndar Hjúkrunarheimilis á Akureyri,“ skrifar Teitur.
Mikið hefur verið fjallað málefni Hlíðar undanfarin misseri, ekki síst um myglu og aðrar skemmdir á húsnæðinu.
Enn beðið eftir framkvæmdaáætlun
„Nú rúmum 2 árum eftir að við tókum við rekstrinum með undirritaða samninga um lagfæringar hefur enn enginn á vegum hins opinbera komið þeim í farveg framkvæmda. Við þurftum að berjast fyrir brunaöryggismálum heimilisins og höfðum betur, það munum við líka gera varðandi aðbúnað íbúa og starfsmanna,“ skrifar Teitur.
„
Enn er beðið eftir framkvæmdaáætlun frá FSRE, myglað ónýtt þak er ekki enn komið í útboð og verður fyrirsjáanlega eitthvað í að það klárist, en ljóst að það frestast inn í haustið/veturinn. Þannnig er nokkur óvissa um það hvenær við munum geta opnað að nýju lokuð heilsuspillandi rými sem mikil þörf er á.
Við höfum verið afar þolinmóð, verið lausnamiðuð og margsinnis boðist til að framkvæma sjálf, og endurrukka þá vinnu, en okkur er það óheimilt. Við höfum að sama skapi boðist til að leysa eignarhaldsvanda þessara fasteigna með kaupum en því var hafnað. Sá vandi er leystur er okkur sagt loksins milli ríkis og sveitarfélags, en það virðist litlu breyta. Þá lögðum við til að nota einingarhús allar götur frá því í nóvember 2022 sem í dag væru komin í notkun hefði verið hlustað. Þar hefðum við leyst húsnæðisvandann og getað unnið að endurbótum núverandi húsnæðis eða haft svigrúm til þess að horfa til framtíðar með nýtingu fasteignanna sem sannarlega eru barn síns tíma.“
Algjört getuleysi og Heilsuvernd tapar
Teitur heldur áfram: „Ekki nóg með það að getuleysið sé nánast algjört hjá hinu opinbera að sinna þessu verkefni, þá tapar félagið tekjum í hverjum mánuði frá upphafi þessa árs vegna þessara lokuðu hjúkrunarrýma og ríkir mikil óvissa um hvenær verði nothæf. Það liggja fyrir 3 skýrslur um ástand húsnæðisins sem Mannvit gerði fyrir heilbrigðisráðuneytið og FSRE. Þar kemur skýrt fram hvað skuli gera, kostnaðarmat og forgangsröðun. Við urðum fyrir sárum vonbrigðum með afstöðu hins opinbera að vandinn sem skapast vegna þessa, þá sérstaklega hvað varðar tekjuskerðingu væri okkar að leysa og þeim óviðkomandi. Það er óásættanleg afstaða og afar slæm pólitík svo ekki sé minnst á fordæmið.“
Forstjórinn segir það alveg ljóst í sínum huga að ábyrgðin á því að skapa okkur aðstæður með mannsæmandi og ekki heilsuspillandi húsnæði fyrir íbúa, aðstandendur og starfsfólk, liggi hjá hinu opinbera. „Við munum því ekki una þessu,“ segir hann.
„
Við höfum staðið þétt við bakið á okkar starfsfólki og íbúum, fært til og komið til móts við eins og okkur er unnt, unnið faglega og upplýst reglubundið um ástandið og beðið um þolinmæði þar sem við erum háð framkvæmdum samanber að ofanverðu. Engum hefur verið sagt upp vegna þessa og verður ekki gert.
Þvert á móti erum við að byggja upp og hlökkum til frekari stækkunar á næstu árum. Þegar hefur verið samið um stækkun heimilisins með nýbyggingu við Vestursíðu. Þar munum við leysa hluta þess vanda sem blasað hefur við, en áætlanir gera ráð fyrir að opna 2027. Ekki er þó hægt að bíða þangað til með að taka á núverandi vanda.“
Stoltur og sterkur hópur
„
Við erum stoltur og sterkur hópur sem vinnur þétt saman og leysir vandamál. Hjá okkur starfar frábært teymi og höfum við sýnt fram á það síðan við tókum við rekstrinum, hann hefur gengið vel, gæðavísar, starfsmannaánægja, ánægja íbúa og aðstandenda verið mæld og verið góð. Margt fleira væri hægt að telja til. Þetta liggur allt fyrir og er auðvelt að sýna fram á. Við munum þurfa að finna lausnir til að sækja það sem okkur ber og veltum þar öllum steinum.
Við erum rétt að byrja og við munum hafa betur enda ekki til í minni orðabók að gefast upp,“ segir Teitur Guðmundsson.