Fara í efni
Fréttir

Fordæma árásir og kalla eftir vopnahléi

Mynd af vef utanríkisráðuneytis Íslands

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi í dag með 10 atkvæðum gegn einu að fordæma árásir gegn almennum borgurum á Gaza „og önnur ofbeldisverk fyrir botni Miðjarðarhafs sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, með tilheyrandi þjáningu og eyðileggingu borgaralegra innviða,“ eins og segir meðal annars í bókun sem Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar, lagði fram. Einn bæjarfulltrúi sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Bókunin er svohljóðandi í heild:

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar fordæmir árásir gegn almennum borgurum á Gaza og önnur ofbeldisverk fyrir botni Miðjarðarhafs sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, með tilheyrandi þjáningu og eyðileggingu borgaralegra innviða. Bæjarstjórn tekur undir með ályktun utanríkismálanefndar Alþingis, að kalla eigi eftir tafarlausu vopnahléi á átökum á svæðinu af mannúðarástæðum, mannúðlegri meðferð á og tafarlausri lausn gísla, aðgengi hjálpar- og mannúðarsamtaka og að neyðarvistum og læknisaðstoð verði komið til almennings tafarlaust. Þá telur bæjarstjórn mikilvægt að sveitarfélög og ríkisstofnanir gangi fram með góðu fordæmi, m.a. þegar kemur að kaupum á vörum og þjónustu. Sjálfsagt sé að gera þá kröfu til fyrirtækja sem Akureyrarbær á í viðskiptum við að þau virði alþjóðalög í hvívetna.

Kallað eftir aðgerðum

Grein Gunnars Más um ástandið á Gaza og viðbrögð við því birtist á Akureyri.net í dag.

„Augu allra beinast að Gaza og þær frásagnir sem berast okkur hingað eru þungbærari en orð fá lýst. Um 80% íbúa Gaza eru á flótta, eða um 1,7 milljónir manna, stór hluti konur og börn. Fólk sem býr á götunni, í vanbúnum tjaldbúðum þar sem aðgengi að hreinu vatn, mat og heilbrigðisþjónustu er af skornum skammti – og er það vægt til orða tekið,“ segir Gunnar Már meðal annars.

Hann segir óumdeilt að Ísrael hafi beitt yfirþyrmandi afli í hernaðaraðgerðum sínum. Íslenskur almenningur kalli eftir aðgerðum og friðsamlegum leiðum til að þrýsta á ísraelsk stjórnvöld til að láta af árásum á almenna borgara. „Ein þeirra hefur verið að hvetja til sniðgöngu að fyrirmynd þeirri sem beindist að Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar. Á sínum tíma réð þrýstingur frá almenningi úrslitum um að það tókst á endanum að koma því í gegnum bæði bandaríska og breska þingið að beita Suður-Afríku viðskiptaþvingunum.“

Gunnar bendir á að rétt sé að taka fram að tugþúsundir Ísraelsmanna hafi mótmælt „stríðsbrölti stjórnvalda á götum Tel Aviv, þrátt fyrir ólýsanlegt ofbeldi Hamassamtakanna gagnvart ísraelskum borgurum 7. október síðastliðinn.“

Smellið hér til að lesa grein Gunnars Más