Fréttir
Ertu góðhjartaður reynslubolti?
09.09.2024 kl. 12:00
„Ertu góðhjartaður reynslubolti sem villt nýta reynslu þína öðrum til góða?“ Þannig spyr stuðningsfélagið Kraftur, félag ungs fólks sem hefur greinst með krabbamein og aðstandenda. Leitað er fólks sem hefur áhuga á að gerast stuðningsfulltrúar.
Félagið hefur að leiðarljósi að beina sameinuðum kröftum sínum til að aðstoða og styðja ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein, og aðstandendur þess. Stuðningsfulltrúanámskeið fyrir verðandi stuðningsfulltrúa í Stuðningsnetinu verður haldið í húsnæði Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis að Glerárgötu 24, 2. hæð, laugardaginn 14. september kl. 10-17. Námskeiðið er ætlað fólki sem búsett er á Norðurlandi, hvort tveggja því sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum, sem vilja styðja við einstaklinga sem lenda í svipuðum sporum.
Umsjónarmaður námskeiðsins er Þorri Snæbjörnsson, sálfræðingur og umsjónarmaður Stuðningsnetsins. Á námskeiðinu verður veitt þjálfun í samtalstækni, að deila reynslu sinni á viðeigandi hátt og að setja mörk. Einnig verður farið yfir ýmis málefni sem oft fylgja krabbameinsveikindum, eins og erfiðar tilfinningar, hvar má nálgast upplýsingar, aðstoð fagaðila, samkipti í fjölskyldum, að tala við börn um krabbamein og fleira.
Upplýsingar