Fara í efni
Fréttir

Engin smit - öll sýnin í gær rannsökuð á SAk

Sýni sem tekin voru á Akureyri í gær, vegna mögulegs Covid-19 smits, reyndust öll neikvæð. Enginn reyndist sem sagt sýktur. Vegna veðurs var ekki hægt að senda sýnin suður en rannsóknarstofa Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) tók sýnin til greiningar.
 
Jón Torfi Halldórsson, yfirlæknir Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri og fulltrúi HSN í aðgerðarstjórn, greindi frá þessu á Facebook. „Rannsóknastofa SAk er ekki enn fullkomlega samhæfð við strikamerkjakerfi Íslenskrar erfðagreiningar og því berast svör ekki sjálfkrafa með SMS eða í Heilsuveru til þeirra sem voru í sýnatöku í dag. Sýnin verða flutt suður þegar veður leyfir og greind aftur hjá Íslenskri erfðagreiningu og þá fá skjólstæðingar okkar formlegt svar. Það er okkur afar mikilvægt að vera strax komin með niðurstöður sýnanna sem tekin voru í dag þó skjólstæðingar okkar fái ekki sjálfkrafa neikvæðar niðurstöður með rafrænum hætti,“ sagði Jón Torfi og þakkaði SAk jafnframt fyrir skjót viðbrögð.
 
Nú eru 27 í sóttkví á Akureyri og þrír í einangrun.