„Bylting“ í Bandalagi kennara á NA-landi
Lagabreyting varðandi formannskjör var samþykkt á aðalfundi Bandalags kennara á Norðausturlandi (BKNE) í gær, hún tók þegar gildi og Helga Dögg Sverrisdóttir, lét af formennsku. Hún var kjörin til tveggja ára í fyrra. BKNE er félag grunnskólakennara í landshlutanum. Hanna Dóra Markúsdóttir, kennari við Brekkuskóla á Akureyri, er nýr formaður.
Helga Dögg, kennari við Síðuskóla á Akureyri, var gagnrýnd mjög fyrr á árinu fyrir skrif þar sem hún lýsti þeirri skoðun að fræðsla í skólum um málefni trans fólks væri móðgandi og vanvirðandi og til þess fallin að stefna heilsu og þroska barna í hættu.
Meðal þeirra sem gagnrýndu Helgu Dögg voru stjórn Kennarasambands Íslands og framkvæmdastjóri Samtakanna 78, auk þess sem bæjarstjórn Akureyrar sendi frá sér yfirlýsingu „að gefnu tilefni“ þar sem því var „skýrt komið á framfæri að í öllu starfi sem sveitarfélagið hafi með höndum sé undantekningarlaust haft að leiðarljósi að jafn réttur allra sé tryggður og fjölbreytileikanum sé fagnað.“
Tilefnið var ekki nefnt en engum duldist að það var grein Helgu Daggar sem birtist í Morgunblaðinu daginn áður.
Tillaga um þá lagabreytinguna á aðalfundi BKNE að formaður yrði kjörinn til eins árs í senn í stað tveggja var samþykkt með 83 atkvæðum, tveir voru á móti og einn sat hjá.
Hanna Dóra bauð sig ein fram til formennsku í BKNE í gær og var kjörin með lófaklappi.