Fara í efni
Fréttir

Andri Freyr varð skákmeistari SA

Andri Freyr Björgvinsson

Andri Freyr Björgvinsson, sem verið hefur sigursæll á mótum Skákfélags Akureyrar undanfarin ár, bætti enn einum titlinum í safn sitt með sigri á haustmóti félagsins á dögunum. 

Haustmóti Skákfélags Akureyrar lauk um síðustu helgi. Fimmtán skákmenn tefldu þar um meistaratitil félagsins. Athygli vakti að níu af fimmtán keppendum voru á unglingsaldri, enda mikill skákáhugi meðal unglinga um þessar mundir. Eldri kynslóðin lét sig þé ekki vanta. Þannig var yngsti keppandinn 12 ára en sá elsti 77 ára!

Andri Freyr fékk sex vinninga í sjö skákum. Þeir Markús Orri Óskarsson, Sigurður Eiríksson og Eymundur Eymundsson fengu fimm vinninga en Markús hreppti annað sætið eftir stigaútreikning. Markús er einungis fjórtán ára gamall og mikið skákmannsefni. Hann hefur nú verið valinn til að tefla fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramóti unglinga sem haldið verður á Ítalíu um miðjan nóvember.

Síðasta umferð haustmótsins var tefld um síðustu helgi. Fyrir umferðina hafði Andri Freyr hálfs vinnings forskot á næsta mann, Eymund Eymundsson, en fyrir lá að Eymundur gæti ekki teflt síðustu skákina og sigurlíkur Andra því allgóðar. Hann átti að tefla við Hrein Hrafnsson, aldursforseta mótsins, en Hreinn hefði getað náð honum að vinningum með sigri. Því miður gat Hreinn ekki mætt vegna veikinda og sigurinn því auðveldur fyrir Andra. Niðurstaða annarra viðureigna hafði ekki áhrif á baráttuna um efsta sætið, en silfurverðlaunin voru undir í tveimur skákum. Þeir Sigurður og Arnar Smári áttust við, báðir með fjóra vinninga. Þar bar sá fyrrnefndi sigur út býtum. Markús náði einnig að sigra í sinni skák, eftir langa baráttu við Gabríel og náði því sömu vinningatölu og Sigurður og Eymundur. Öll úrslit í lokaumferðinni:
Andri-Hreinn 1-0
Sigurður-Arnar 1-0
Gabríel-Markús 0-1
Sigþór-Goði 0-1
Valur-Stefán 0-1
Damian-Natan 1-0
Eymundur, Helgi og Jökull Máni sátu allir yfir.

Lokastaðan:
1. Andri Freyr Björgvinsson 6
2. Sigurður Eiríksson 5
Markús Orri Óskarsson 5
Eymundur Eymundsson 5
5. Hreinn Hrafnsson 4
Arnar Smári Signýjarson 4
7. Stefán G Jónsson 3,5
Goði Svarfdal Héðinsson 3,5
Sigþór Árni Sigurgeirsson 3,5
Helgi Valur Björnsson 3,5
11.Gabríel Freyr Björnsson 3
12.Valur Darri Ásgrímsson 2,5
Jökull Máni Kárason 2,5
14.Damian Jakub Kondracki 2
Natan Koziarski 2.

Þetta er í fjórða sinn sem Andri vinnur þetta mót og meistaratitil félagsins. Hann er stigahæstur keppenda og var því sigurstranglegur frá byrjun; lagði alla keppinauta sína að velli, nema Sigurð en skák þeirra lauk með jafntefli.

Gaman er að velta fyrir sér aldursskiptingu keppenda. Af fimmtán þátttakendum eru níu enn á unglingsaldri, þ.e. undir tvítugu. Tveir eru á þrítugsaldri og einn rúmlega fimmtugur. Elstir eru svo lávarðar þrír á áttræðisaldri. Það má því með sanni segja að skákin höfði jafnt til ungra sem aldinna.

Af keppendum í hópi þeirra yngstu vekur árangur Markúsar mesta athygli, enda hefur honum verið að fara mikið fram síðustu misseri. Þessi árangur verður honum gott veganesti í för á heimsmeistarmót unglinga á Ítalíu í næsta mánuði þar sem hann teflir fyrir Íslands hönd. Þá er og vert að minnast á góða frammistöðu Goða Svarfdal, sem tefldi nú á sínu fyrsta kappskákmóti. Hann hefur þegar tekið út umtalsverðan skákþroska og vantar nú aðeins örfáar skákir til að komast á lista yfir skákmenn með alþjóðleg skákstig.