„Alltaf gott veður á Akureyri“ staðfest?
Í tilefni af Evrópskri samgönguviku sem nú stendur sem hæst og nær hámarki með bíllausa deginum á morgun skoðaði fréttaritari vefs Akureyrarbæjar gögn hjá Vistorku með samgönguveðrið á Akureyri í huga. Samkvæmt veðurspá og væntanlegu samgönguveðri á morgun ætti að vera kjörið tækifæri til að skilja bílinn eftir heima á bíllausa deginum og velja þess í stað að ganga, hjóla, taka strætó eða leigja sér rafskútu. Það er líka smá bónus í boði því rafskútuleigurnar Hopp og Skutla fella niður startgjaldið á morgun og með strætóferðinni fylgir boðsmiði í sund síðar um daginn.
Daglegt mat á samgönguveðrinu
Á vef Vistorku má á hverjum degi sjá mat starfsfólks fyrirtækisins á samgönguveðrinu þann daginn, sett upp á kvarða sem nær frá því að „ganga/hjóla“ yfir í „strætó/keyra“ og svo „vinna heima“ á hinum enda kvarðans. Til að mynda var merkt vel til vinstri á ás dagsins, klárlega „ganga/hjóla“ megin á kvarðanum.
Skjáskot af vef Vistorku.
Sjaldan ekki hundi út sigandi
Fréttaritari vefs Akureyrarbæjar komst í gagnagrunninn fyrir samgönguveðrið og lýsir því sem þar sást þegar rýnt var í tölurnar. Niðurstaðan er meðal annars að sagan um að það sé alltaf gott veður á Akureyri eigi við rök að styðjast og því oftar en ekki hægt að skilja bílinn eftir heima.
„Rúmlega 80% tímans var veðrið nógu gott til að þykja hentugt til göngu og hjólreiða. Í tæplega 20% tilfella þótti heppilegra að taka strætó eða fara keyrandi og í aðeins tæplega 1% tilfella var ekki hundi út sigandi og því skynsamlegast að vinna heima ef það var mögulegt,“ segir í fréttinni.
Þetta er svo sett upp á myndrænan hátt eftir mánuðum fyrir heilt ár.