Fara í efni
Umhverfismál

Undrast aðgerðarleysi og tómlæti lóðarhafa

Horft yfir Hamragerði 15 á Akureyri í gær. Myndir: Þorgeir Baldursson

Um 20 ökutæki í eigu Auto ehf. á Svalbarðsströnd hafa verið tekin í vörslu Akureyrarbæjar það sem af er ári vegna þess að þeim hefur verið komið fyrir hér og þar innan bæjarmarkanna. Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra íhugar þvingunarúrræði verði ekki brugðist við og tekið til á lóð fyrirtækisins. Nefndin undrast jafnframt tómlæti lóðarhafa að Hamragerði 15 þar sem ekki hefur verið brugðist við fyrirmælum og dagsektum vegna slæmrar umgengni.

Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra „undrast aðgerðarleysi og tómlæti lóðarhafa“ að Hamragerði 15 á Akureyri, eins og það er orðað í fundargerð nefndarinnar frá 24. apríl. Þar er fjallað um umgengni á lóðinni og dagsektir sem nefndin ávkað fyrr á árinu að leggja á lóðarhafa þar sem ekki hafði verið brugðist við tilmælum um tiltekt á lóðinni. Upphaflega ætlaði nefndin að leggja á dagsektir frá 2. janúar, en vegna misritunar á ártali í fundargerð frestaðist sú aðgerð til 26. febrúar, eins og Akureyri.net greindi frá á þeim tíma.

„Enn hefur ekki verið brugðist við kröfum Heilbrigðisnefndar um tiltekt á lóðinni. Innan lóðarmarka eru á þriðja tug ökutækja í misjöfnu ástandi, auk fleiri lausamuna. Lóðin er því enn til lýta fyrir umhverfið og umgengni um hana veldur nágrönnum og vegfarendum ama,“ segir ennfremur í fundargerðinni. Nefndin minnir á að innheimtu dagsekta verði haldið áfram þar til bætt verður úr þessu ástandi og íhugar nú að endurskoða upphæð dagsekta á næsta fundi hafi tiltekt á lóðinni þá ekki farið fram. 

Án starfsleyfis og dreifa bifreiðum innan bæjarmarkanna

Mál heilbrigðisnefndarinnar gegn lóðarhafa að Hamragerði 15 tengist öðru máli af sama toga. Þar er um að ræða umgengni á lóð Auto ehf. að Setbergi á Svalbarðsströnd. Nefndin fór fram á það í febrúar að tekið yrði til á lóð fyrirtækisins og að forgangsverkefni væri að fjarlægja ökutæki og aðra lausamuni sem blasa við frá þjóðvegi. Athygli vekur einnig að nefndin hvatti fyrirtækið til að geyma ökutæki sín á til þess ætluðum svæðum, en þá höfðu sjö ökutæki í eigu Auto ehf. verið tekin í vörslu Akureyrarbæjar í janúarmánuði þar sem þeim hafði verið komið fyrir hér og þar innan bæjarmarkanna. Þá var einnig bent á að fyrirtækið væri án starfsleyfis. 

Ekki hefur verið brugðist við kröfum Heilbrigðisnefndar um tiltekt á lóðinni og númerslausum bílum í umsjón fyrirtækisins er áfram komið fyrir innan bæjarmarka Akureyrarbæjar. Um 20 ökutæki á vegum Auto ehf. hafa verið tekin í vörslu Akureyrarbæjar það sem af er ári,“ segir í bókun nefndarinnar, sem hefur samþykkt að veita fyrirtækinu frest til 1. júní til tiltektar á lóðinni og fjarlægja bíla og lausamuni sem blasa við frá þjóðvegi. Verði ekki brugðist við íhugar nefndin að beita þvingunarúrræðum í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þá ítrekar nefndin þau tilmæli að ökutæki í eigu og umsjón Auto ehf. séu geymd á til þess ætluðum svæðum á vegum fyrirtækisins.