Umhverfismál
Aðgerðaáætlun í umhverfis- og loftslagsmálum
22.02.2024 kl. 10:40
Akureyri. Mynd: Haraldur Ingólfsson.
Ný aðgerðaáætlun í umhverfis- og loftslagsmálum til ársins 2026 var samþykkt samhljóða á bæjarstjórnarfundi í gær. Aðgerðaáætlunin tengist umhverfis- og loftsagsstefnu Akureyrarbæjar 2022-2030.
Umhverfis- og loftslagsstefna Akureyrarbæjar 2022-2030 var samþykkt af bæjarstjórn á vordögum 2022, en fljótlega eftir að stefnan var samþykkt kom fram ósk frá Sunnu Hlín Jóhannesdóttur, bæjarfulltrúa B-lista, um að bæta við sérstökum kafla um umgengni og þrifnað utanhúss við stefnuna. Bæjarstjórn afgreiddi þá viðbót í október 2023 og hlaut sjötti kaflinn heitið Umgengni og stjórnsýsla. Í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar hófst vinna við aðgerðaáætlun og kostnaðargreiningu hennar.
Kölluðu eftir samgöngusamningum eða styrkjum
Bæjarráð samþykkti aðgerðaáætlunina í byrjun febrúar með fjórum atkvæðum gegn einu. Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi S-lista, sat hjá. Hún og Jana
Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, bæjarfulltrúi V-lista lögðu fram bókun við afgreiðslu bæjarráðs. Í bókuninni gagnrýna þær að ekki sé vilji til þess að skoða neina útfærslu á samöngusamningum eða styrkjum og segja slíka samninga vera eitt besta tækið sem vinnuveitendur hafa til að hvetja starfmenn til vistvænna samgangna. „Vistvænar samgöngur geta dregið úr losun gróðuhúsalofttegunda og svifryksmengun, auk þess að auka ánægju, afköst og heilbrigði. Ýmis fyrirtæki og sveitarfélög bjóða starfsmönnum sínum upp á samgöngustyrki eða samninga og ætti Akureyrarbær að gera slíkt hið sama.
Alls 47 aðgerðir í sex flokkum
Aðgerðaáætlunin inniheldur lista yfir 47 tímasettar aðgerðir ásamt flokkun á því hverjar þeirra eru í undirbúningi, í framkvæmd eða að fullu innleiddar. Flokkarnir sex eru: 1. Hrein orka. 2. Breyttar ferðavenjur. 3. Úrgangsauðlindin. 4. Loftgæði og heilsa. 5. Græn svæði og náttúra. 6. Umgengni og stjórnsýsla.
Myndin sýnir sex flokka aðgerðaáætlunarinnar ásamt 47 flokkuðum verkefnum sem ýmist eru í undirbúningi, í framkvæmd eða að fullu innleidd. Smellið á myndina til að opna skjal með aðgerðaáætluninni. Skjáskot úr aðgerðaáætluninni.
Undir hverjum flokki eru undirflokkar með lýsingum á aðgerð, framkvæmd, markmiðum, hver ber ábyrgð á viðkomandi aðgerð og stöðu hennar. Akureyri.net fer áfram yfir aðgerðaáætlunina og verður stiklað á stóru yfir markmið hennar á morgun.