Fara í efni
Þór

Þórsstelpurnar tóku forystu í einvíginu

Það blés byrlega fyrir Tuba Poyraz og aðra leikmenn Þórs í dag. Tuba gerði 23 stig í leiknum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór sigraði Snæfell 73:63 í kvöld í Íþróttahöllinni á Akureyri og tók þar með forystu í einvígi liðanna í undanúrslitum 1. deildar kvenna í körfubolta. Staðan er nú 2:1, þrjá sigra þarf til að komast í úrslit og liðin mætast næst í Stykkishólmi á sunnudag.

  • Skorið eftir leikhlutum: 19:10 – 20:17 (39:27) – 17:16 – 17:20 – 73:63

Fyrri tveir leikirnir voru æsispennandi en eins og tölurnar bera með sér náðu Þórsarar fljótt undirtökunum í kvöld og höfðu lengi vel býsna þægilegt forskot. Forystan var mest 19 stig en í síðasta leikhlutanum nálguðust gestirnir – meira en að minnsta kosti sumum áhorfendum þótti þægilegt – en munurinn varð þó aldrei minni en sjö stig.

Tuba Poyraz var stigahæst hjá Þór með 23 stig, Madison Anne Sutton gerði 19 og Eva Wium 13.

Nánari tölfræði

Madison Anne Sutton lék vel að vanda í Þórsliðinu. Hér er brotið á henni um leið og skotið reið af; boltinn fór rétta leið og Maddie fékk vítaskot að auki. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson