Fara í efni
Þór

Þórsarar mæta Vestra á Ísafirði í dag

Bjarni Guðjón Brynjólfsson gerði sigurmarkið gegn Vestra í 1. umferð Lengjudeildarinnar í Boganum í vor og eina markið í sigri á Ísafjarðarliðinu á Þórsvellinum í fyrra. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar sækja Vestramenn heim í dag í 13. umferð Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Flautað verður til leiks á Ísafirði kl. 14.00.

Hér er um að ræða 12. leik Þórs í deildinni þótt hann teljist til 13. umferðar því leik gegn Gróttu var frestað vegna Evrópumóts U19 landsliðsins á dögunum. 

Þór er í 8. sæti Lengjudeildarinnar með 14 stig og Vestri sæti neðar með 13.

Leikurinn verður í beinu streymi á YouTube-rás Lengjudeildarinnar.

Á heimasíðu Þórs eru viðureignir félaganna undanfarin ár rifjaðar upp:

Þessi lið hafa ekki mæst oft í næstefstu deild Íslandsmótsins enda er Vestri ekki gamalt félag sem slíkt. Í átta viðureignum þessara liða í næstefstu deild hafa Þórsarar tvisvar unnið, en Vestri fjórum sinnum. Þór vann leik liðanna í fyrri umferð deildarinnar í vor, 2-1. Þór vann einnig heimaleikinn gegn Vestra í fyrrasumar, 1-0, en jafntefli varð í fjörugum leik fyrir vestan, 3-3.