Fara í efni
Þór

Þórsarar byrjuðu með sigri á Vestra

Þórsarar fagna fyrsta marki liðsins á Íslandsmótinu í ár eftir að Daninn Marc Sörensen skoraði beint úr aukaspyrnu á 18. mínútu. Frá vinstri: Nikola Kristinn Stojanovic, Ýmir Geirsson, Sörensen, Valdimar Daði Sævarsson og Alexander Már Þorláksson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu 2:1 sigur á Vestra í leik sem fór fram í Boganum í dag. Leikurinn var hluti af fyrstu umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu sem fór af stað um helgina. Heimamenn voru sterkari aðilinn heilt yfir og var sigurinn verðskuldaður.

Þórsarar gerðu fyrsta mark leiksins en það var Daninn Marc Sörensen sem gerði það með góðu skoti beint úr aukaspyrnu á 18. mínútu.

Vestramenn jöfnuðu leikinn rétt fyrir lok fyrri hálfleiks en markið var skráð sem sjálfsmark á Bjarka Þór Viðarsson eftir mikið klafs í teignum eftir aukaspyrnu gestanna.

Það var svo korter liðið af seinni hálfleik þegar Benedikt Warén fékk sitt annað gula spjald fyrir leikaraskap og Vestra menn því einum færri það sem eftir lifði leiksins. Heimamenn í Þór nýttu sér liðsmuninn og á 72. mínútu leiksins kom Bjarni Guðjón Brynjólfsson liðinu yfir með flottum skalla.

Vestramenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna en Þórsarar fengu einnig góð færi til að ganga frá leiknum. Fleiri mörk voru þó ekki skoruð og niðurstaðan því 2:1 sigur. Þórsliðið mætir Aftureldingu á útivelli næsta föstudag í annarri umferð deildarinnar.

Nánar á eftir