Fara í efni
Þór

Rut og Ólafur semja áfram til tveggja ára

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, Ólafur Gústafsson, Rut Jónsdóttir og Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs.

Handboltahjónin Ólafur Gústafsson og Rut Jónsdóttir framlengdu í dag samninga sína við KA og KA/Þór um tvö ár. Þau eru þar með samningsbundin til vors 2024.

„Það er áfram mikill hugur í handboltanum hjá okkur og er það algjört lykilskref að halda þeim Óla og Rut innan okkar raða. Ekki nóg með að hafa leikið afar vel með KA og KA/Þór hafa þau komið sterk inn í félagsstarfið hjá okkur og gefa mikið af sér til yngri iðkenda,“ segir í tilkynningu sem birt var á heimasíðu KA.

„Rut sem er 31 árs gömul fór fyrir liði KA/Þórs á síðustu leiktíð þar sem liðið vann allt sem hægt var að vinna og var hún valin handknattleikskona ársins árið 2021 auk þess sem hún var kjörin íþróttakona KA. Þá er hún fyrirliði íslenska landsliðsins þar sem hún hefur leikið yfir hundrað landsleiki,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir ennfremur: 

„Rut gekk til liðs við KA/Þór frá Esbjerg í Danmörku en hún hélt út í atvinnumennsku árið 2008 þar sem hún hefur leikið með Team Tvis Holstebro, Randers, FCM Håndbold og loks Esbjerg. Með Tvis Holstebro vann hún EHF Cup árið 2013 og árið 2016 varð hún bikarmeistari með Randers. Með Esbjerg varð hún danskur meistari árið 2019 og 2020.

Ólafur Gústafsson er 32 ára gamall og er einn markahæstu leikmanna KA á núverandi tímabili. Auk þess að láta til sín taka í sóknarleiknum er Óli einn besti varnarmaður landsins en hann hefur leikið 22 landsleiki fyrir Íslands hönd en hann tók þátt á HM 2013, EM 2018 og HM 2019. Hann gekk til liðs við KA frá KIF Kolding í Danmörku.

Ólafur sem er uppalinn í FH varð Íslandsmeistari með liðinu 2011 áður en hann hélt út í atvinnumennsku með Flensburg-Handewitt í Þýskalandi. Þar lék hann í tvö ár og vann meðal annars Meistaradeild Evrópu árið 2014. Í kjölfarið gekk hann til liðs við Aalborg í Danmörku þar sem hann lék frá 2014 til 2016. Veturinn 2016-2017 lék hann með Stjörnunni í Garðabæ en þaðan gekk hann til liðs við KIF Kolding þar sem hann lék í þrjú tímabil.

Við hlökkum áfram til að fylgjast með þessum frábæru leikmönnum hér fyrir norðan en næstu leikir eru strax á sunnudaginn þegar bæði KA og KA/Þór leika heimaleik í 8-liða úrslitum Coca-Cola bikarsins. KA/Þór mætir annaðhvort HK eða Aftureldingu kl. 14:00 og í kjölfarið kl. 16:00 tekur KA á móti Haukum. Sæti í úrslitahelgi bikarkeppninnar er í húfi og því um að gera að mæta og styðja okkar frábæru lið til sigurs.“

Ólafur Gústafsson og Rut Arnfjörð Jónsdóttir.