Fara í efni
Þór

Möguleg uppbygging á Þórssvæðinu

Myndin skýrir í grófum dráttum hugmyndir hópsins með skýringum beggja vegna myndarinnar.

Aðalstjórn íþróttafélagsins Þórs kynnti í gær á félagsfundi tillögur stjórnarinnar og stýrihóps um framtíðar uppbyggingu á Þórssvæðinu. Mynd af tillögunni hér að ofan og einnig neðst í fréttinni.

„Þetta er í annað sinn á síðustu fjórum árum sem félagið ræðst í slíka vinnu en sú framtíðarsýn sem kynnt var í febrúar 2018 varð að engu vegna breytinga sem gerðar voru á svæði við Glerárskóla.“ Hér má sjá tillöguna frá 2018.

Stýrihópinn sem vann að tillögunni skipuðu, frá Þór; Ingi Björnsson, Reimar Helgason, Unnsteinn Jónsson, Jón Stefán Jónsson, Árni Óðinsson, Brynja Sigurðardóttir og Margrét Silja Þorkelsdóttir. Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður Íþróttabandalags Akureyrar, sat einnig fundi hópsins fyrir hönd bandalagsins. Einnig komu Kollgáta arkitektúr að verkinu, að því er segir á vef Þórs.

„Segja má að í grunninn sé nýja tillagan byggð á svipuðum grunni og sú fyrri nema hvað niðurröðun mannvirkja er önnur nú. Í tillögunni eru stærðir mannvirkja ekki málsett eða mat lagt á hvað framkvæmdirnar muni kosta.

Líflegar umræður sköpuðust um tillögurnar og fundarmenn voru sammála um að eins og bærinn muni byggjast á næstu árum þurfa þessi mannvirki að koma fyrr en síðar, vilji menn á annað borð veita íbúum í 603 viðunandi þjónustu. Íþróttasvæði Þórs er löngu sprungið og félagið eitt fárra eða jafnvel eina stóra fjölgreina íþróttafélagið sem ekki hefur fullbúið íþróttahús á eigin félagssvæði.

Athugið að gert er ráð fyrir því að sett verði gervigras á knattspyrnuvellina sem merktir eru H og E. Einnig minntu fundarmenn á að samkvæmt samningum milli Þórs og Akureyrarbæjar hefði framkvæmdum við þak á stúkuna og flóðlýsingu átt að vera löngu lokið.

Í lok fundarins veitti fundurinn aðalstjórn Þórs og stýrihópnum heimild til að halda áfram með þessa vinnu og koma henni á framfæri við bæjaryfirvöld.“

  • Að ofan: Ingi Björnsson, formaður Þórs, á fundinum í gær.

Jón Stefán Jónsson, íþróttafulltrúi Þórs, til vinstri, og Reimar Helgason, framkvæmdastjóri félagsins, kynna tillögurnar á fundinum í gær. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.