Fara í efni
Þór

Metþátttaka hjá píludeild Þórs – 478 viðureignir

Davíð Örn Oddsson, formaður píludeildar Þórs, til vinstri, og Alexander Veigar Þorvaldsson, sigurvegari í einmenningi.

Alexander Veigar Þorvaldsson sigraði í einmenningi í 501 á opnu móti píludeildar Þórs, Akureyri Open, sem fram fór á laugardaginn. Brynjar Þór Bergsson og Kristján Þorsteinsson unnu keppni í tvímenningi kvöldið áður.

Áhugi á pílukasti hefur aukist jafnt og þétt síðustu misseri, metþátttaka var í mótinu og komust færri að en vildu, að því er segir á heimasíðu Þórs. Alls fóru fram 478 viðureignir á föstudagskvöld og laugardag!

Davíð Örn Oddsson, formaður píludeildarinnar, var virkilega ánægður með hvernig til tókst. „Mótið gekk virkilega vel fyrir sig og var mikil ánægja meðal keppenda með mótið í heild sinni. Mikill fjöldi keppenda var í aðstöðunni alla helgina og er það alveg frábært hversu vel heppnaðist.“

Hann segir að eðlilega hafi stundum verið smá bið á milli leikja en mótsstjórar hafi reynt sitt besta til að allt gengi vel. „Við þökkum öllum þeim sem lögðu land undir fót og gerðu sér ferð til okkar. Einnig viljum við þakka okkar meðlimum og sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóg við undirbúning og gerðu mótið jafn glæsilegt og það var. Við hlökkum til að halda Akureyri Open á næsta ári og gera mótið ennþá stærra og glæsilegra!" segir Davíð Örn, en hann komst sjálfur í undanúrslit í keppni í tvímenningnum á föstudagskvöldið.

Nánar hér á heimasíðu Þórs

Smellið hér til að sjá myndasyrpu frá mótinu