Fara í efni
Þór

Markmið Þórs/KA eru skýr – MYNDBAND

Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þórs/KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA hefur leik í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Bestu deildinni, annað kvöld, miðvikudagskvöld. Liðið sækir þá Stjörnuna heim í Garðabæ. Fyrsta umferð Íslandsmótsins hófst í kvöld með þremur leikjum en tveir verða á morgun.

Húsvíkingurinn Jóhann Kristinn Gunnarsson tók við þjálfun Þórs/KA á ný í vetur. Hann er Akureyringum sannarlega að góðu kunnur því þegar Þór/KA varð Íslandsmeistari hið fyrra sinni, sumarið 2012, var hann þjálfari liðsins.

Einstakur hópur?

Leikmannahópurinn í sumar er sennilega allt að því einstakur að því leyti að nánast allar stelpurnar eru aldar upp í Þór eða KA. Þrír útlendingar eru í leikmannahónum og Hulda Ósk Jónsdóttir er alin upp í nágrenni Húsavíkur en hefur leikið lengi með Akureyrarliðinu. „Þetta er góður vitnisburður um kvennastarfið í fótboltanum á Akureyri,“ segir Jóhann og bætir við að efniviðurinn í bænum sé afar mikill. Margar stelpurnar séu enn mjög ungar en öflugar engu að síður.

Hópurinn hefur sett sér ákveðin markmið að sögn Jóhanns Kristins. Þjálfarinn segist ánægður með hvað leikmenn höfðu til málanna að leggja á fundi þar sem markmiðin voru rædd. „Markmiðin eru skýr; nú verður deildin tvískipt eftir 18 leiki og markmið okkar er að fara í leikina og safna nógu mörgum stigum svo við verðum í efri hlutanum. Eftir það sest hópurinn aftur niður og setur sér ný markmið.“

Smellið hér til að sjá viðtalið við Jóhann Kristin