Fara í efni
Þór

Margrét Árnadóttir komin til Þórs/KA á ný

Margrét Árnadóttir verður nr. 14 í liði Þórs/KA núna þegar hún snýr aftur til félagsins eftir dvöl á Ítalíu. Myndin er af heimasíðu Þórs/KA.

Margrét Árnadóttir er gengin til liðs við Þór/KA að nýju eftir að hafa leikið á Ítalíu í vetur og vor. Þetta kemur fram í nýrri frétt á heimasíðu félagsins. 

Óhætt er að fullyrða að heimkoma Margrétar verði félaginu mikill fengur núna þegar endaspretturinn í deildinni er að hefjast eftir hlé sem gert var á mótinu vegna lokamóts EM U19 landsliða. Þór/KA er enn án tveggja erlendra leikmanna liðsins, en þær Dominique Randle og Tahnai Annis, eru þessa dagana með landsliði Filippseyja á HM þar sem þær unnu óvæntan sigur á gestgjöfunum í Nýja-Sjálandi í öðrum leik sínum í riðlinum. Auk fjarveru þeirra hefur Sandra María Jessen verið frá keppni eftir handleggsbrot í leiknum gegn Tindastóli 21. júní. 

Í frétt á heimasíðu Þórs/KA lýsir Jóhann Kristinn Gunnarsson ánægju sinni með að fá Margréti aftur til liðs við félagið.

„Það er okkur mikið ánægjuefni að fá Margréti aftur inn í okkar sterka hóp,“ segir Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA. „Með henni fáum við inn meiri reynslu og gæði í annars mjög ungan og efnilegan leikmannahóp, við aukum breiddina, sem er mjög mikilvægt fyrir okkur fyrir lokakafla hefðbundnu deildarkeppninnar og svo áfram í leikjunum sem bætast við eftir tvískiptinguna. Við eigum sex leiki eftir í deildinni sem raðast á innan við mánuð og þar mun breiddin skipta miklu máli. Við vitum alveg hvað Margrét getur, vitum hvað við erum að fá. Magga getur leyst margar stöður og á eftir að styrkja okkur mikið. Hún er ein af okkur og þekkir allt hér og við þekkjum hana, þannig að Margrét mun smella vel inn í hópinn hjá okkur og okkar leik, það er enginn vafi,” segir Jóhann Kristinn í fréttinni.