Fara í efni
Þór

KA/Þór steinlá fyrir Val og mætir Stjörnunni

Rut Jónsdóttir var markahæst í liði KA/Þórs að Hlíðarenda. Hér er hún í leiknum gegn Val í KA-heimilinu fyrr í vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Eftir leiki helgarinnar í Olís deild kvenna í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins, er ljóst að Stelpurnar okkar í KA/Þór mæta Stjörnunni í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. KA/Þór steinlá fyrir Val að Hlíðarenda í síðustu umferð deildarinnar um helgina, 33:19 eftir að staðan var 18:7 í hálfleik.

Fyrsta umferð úrslitakeppninnar kvenna hefst mánudaginn 17. apríl. Tvö efstu lið deildarinnar, ÍBV og Valur, sitja hjá en annars vegar leika Stjarnan (3. sæti) og KA/Þór (6.) um sæti í undanúrslitum, hins vegar Fram (4.) og Haukar (5.)

Sigur Vals á KA/Þór var afar auðveldur; tölurnar segja allt sem segja þarf. KA/Þór gerði tvö fyrstu mörk leiksins en síðan tóku Valsmenn öll völd. Í stuttu máli sagt náðu leikmenn Akureyrarliðsins sér ekki á strik, sumir voru reyndar mun skárri en aðrir. Nathalia Soares Baliana gerði til að mynda eitt mark úr 10 skotum.

Mörk KA/Þ​órs: Rut Jóns­dótt­ir 6, Ida Mar­gret­he Ho­berg 4, Hild­ur Lilja Jóns­dótt­ir 3, Lydía Gunnþórs­dótt­ir 2, Júlía Björns­dótt­ir 1, Anna Mary Jóns­dótt­ir 1, Telma Lísa Elm­ars­dótt­ir 1, Nathalia Soares Bali­ana 1.

Var­in skot: Matea Lonac 5, Sif Hall­gríms­dótt­ir 4.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.