Fara í efni
Þór

KA-menn mæta Fram, Þórsleiknum frestað

Þórður Tandri Ágústsson og Ingimundur Ingimundarson hafa verið frábærir saman í miðri Þórsvörninni í síðustu leikjum. KA-maðurinn Einar Birgir Stefánsson, sem þarna er á milli þeirra, mætir Frömurum í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

UPPFÆRÐ FRÉTT

KA-menn og Þórsarar áttu að vera í eldlínunni í dag á Íslandsmóti karla í handbolta. KA mætir Fram í Reykjavík, leikurinn hefst klukkan 15.00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Þórsarar áttu að taka á móti Aftureldingu í íþróttahöllinni á Akureyri klukkan 16.00 en leiknum hefur verið frestað þangað til klukkan 19.00 annað kvöld.

Lið Aftureldingar ætlaði að koma fljúgandi norður en þar sem ekki er flogið vegna veðurs er hægt að fresta leik um sólarhring. Þórsarar voru að vísu nokkuð undrandi í morgun því þeir lásu um frestunina á netinu, og mótastjóri HSÍ hafði ekki hugmynd um breytinguna þegar haft var samband við hann um hádegisbil. Hvað sem því líður þá mætast liðin annað kvöld.

Smellið hér til að horfa á leik Þórs og Aftureldingar í beinni útsendingu.

KA hefur verið á góðu skriði; liðið vann ÍBV í Eyjum fyrir tveimur vikum, gerði síðan jafntefli við Val, vann Þór um síðustu helgi og loks Hauka í vikunni. KA-menn komust þar með upp í þriðja sæti deildarinnar, eru með 14 stig eftir 11 leiki. Fram er í níunda sæti með 10 stig úr 11 leikjum. Með sigri í dag fer KA upp í 16 stig, að hlið FH, sem mætir Val annað kvöld.

Þórsarar hafa aftur á móti verið í nokkrum vandræðum, hafa þó leikið bærilega á köflum en uppskeran hefur verið heldur rýr. Liðið er í næst neðsta sæti með fjögur stig eftir 11 leiki, gestir dagsins í Aftureldingu eru með 13 stig eftir 11 leiki og ljóst að Þórsara bíður ærið verkefni. Liðin mættust í fyrstu umferð Íslandsmótsins í haust í Mosfellsbæ og þá unnu heimamenn með aðeins tveggja marka mun. Gróttumenn, sem er í þriðja neðsta sæti deildarinnar, hafa heldur betur spýtt í lófana undanfarið, unnu Selfyssinga á útivelli í síðustu umferð og Fram á heimavelli þar áður. Því er ljóst að Þórsarar verða að fara að næla í stig í baráttunni.