Fara í efni
Þór

Hafþór Vignisson semur við Rostock

Þórsarinn Hafþór Már Vignisson, sem nú leikur með Stjörnunni, hefur samið við þýska handboltafélagið HC Empor Rostock til tveggja ára. Handbolti.is greinir frá þessu í dag.

Hafþór Már gengur til liðs við félagið í sumar þegar tveggja ára vist hans hjá Stjörnunni verður lokið. HC Empor Rostock hefur verið í hópi fremstu liða í 2. deildinni undanfarin ár og situr í áttaunda sæti af 20 um þessar mundir. 

„Ég hafði verið að skoða í kringum mig þegar HC Empor Rostock kom inn í myndina og eftir að hafa litið á aðstæður þá er ég ekki í vafa um að þetta er rétta tækifærið fyrir mig,“ sagði Hafþór Már í samtali við handbolta.is í dag.

„Ég fæ stórt og gott hlutverk hjá HC Emport Rostock og er bara spenntur að takast á við þennan áfanga á ferlinum,“ sagði Hafþór Már ennfremur en hann sótti félagið heim á dögunum og leist vel á það sem fyrir augu bar.

„Mikill áhugi er fyrir handbolta í borginni sem er vitanlega mikill plús. Félagið er rótgróið og metnaður er mikill. Keppnishöllin er nýleg og rúmar fimm þúsund áhorfendur. Umgjörð og utanumhald hjá félaginu virðist vera eins og best verður á kosið,“ sagði Hafþór Már við handbolta.is.

Smellið hér til að lesa frétt handbolti.is