Fara í efni
Þór

Glæsimark Bjarna – þriðji sigur Þórs í röð

Bjarni Guðjón Brynjólfsson tryggði Þór þrjú stig með glæsilegu marki. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu þriðja sigurinn í röð, og þann fimmta í sjö leikjum, þegar þeir fengu Vestra í heimsókn í dag í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Bjarni Guðjón Brynjólfsson tryggði 1:0 sigur með stórglæsilegu marki í seinni hálfleik. 

Það var á 63. mínútu sem Bjarni skoraði. Hann hafði betur í baráttu um boltann við Nacho Gil í miðjuhringnum og lék alla leið upp að vítateig gestanna. Þar hleypti Bjarni af; boltinn fór með jörðinni og small í stönginni vinstra megin og skaust þaðan í netið. Sannarlega glæsilega að verki staðið hjá þessum unga, efnilega leikmanni.

Þetta var langt frá því besti leikur Þórsara í sumar og raunar var með miklum ólíkindum að Vestramenn næðu ekki að skora því þeir fengu fullt af góðum færum. En ýmist hittu þeir ekki markið, varnarmenn Þórs náðu að kasta sér fyrir boltann eða Aron Birkir markvörður Þórsara sá við þeim. Stigin þrjú fara því í sarp Þórsara en Ísfirðingarnir halda tómhentir heim.

Öll liðin hafa nú lokið 15 leikjum og eru Þórsarar í áttunda sæti með 20 stig, tveimur minna en Grótta, Afturelding, Selfoss og Vestri sem eru jöfn í fjórða til sjöunda sæti.

Næsti leikur Þórs er á útivelli gegn Selfossi á miðvikudaginn og næsti heimaleikur verður eftir rúma viku, sunnudaginn 14. ágúst, þegar topplið HK kemur í heimsókn.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni