Fara í efni
Þór

Fyrrum félagar voru Þórsurum erfiðir

Arnór Þorri Þorsteinsson var eins og oft áður sprækastur Þórsara, skoraði sjö mörk. Hér er hann í leik gegn Fjölni fyrr í vetur en liðin mætast einmitt í undanúrslitum úrslitakeppninnar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Enginn er annars bróðir í leik. Ef til vill mætti nota þá speki um handboltaleik kvöldsins þegar Þórsarar fengu lið Víkings í heimsókn. Í liði Víkings leika tveir fyrrverandi leikmenn Þórs og Akureyrar – handbolta, þeir Gunnar Valdimar Johnsen og Kristján Orri Jóhannsson. Þessir tveir skoruðu rétt tæplega helming marka gestanna, samtals 14 af 30 mörkum og gestirnir sigruðu 30:26.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleiknum. Þórsarar náðu forystu í upphafi leiks og komust í 4:1, en Víkingar náðu vopnum sínum og jafnt var 7:7 og 10:10. Víkingar voru einu marki yfir í leikhléinu, 15:14. Eftir jafnar upphafsmínútur í seinni hálfleiknum var komið að slæmum kafla hjá Þórsurum. Á um það bil átta mínútum (35. til 43.) skoruðu Þórsarar eitt mark á móti sex mörkum gestanna og staðan breyttist úr 17:17 í 18:23. Það bil náðu Þórsarar ekki að brúa.

Arnór Þorri Þorsteinsson var eins og oft áður sprækastur Þórsara, skoraði sjö mörk. Kristján Páll Steinsson varði vel í marki Þórs í fyrri hálfleiknum. Eins og áður sagði voru þeir Gunnar Valdimar Johnsen og Kristján Orri Jóhannsson atkvæðamestir Víkinga, Gunnar með níu mörk og Kristján fimm.

Mörk Þórs: Arnór Þorri Þorsteinsson 7, Aron Hólm Kristjánsson 5, Jón Ólafur Þorsteinsson 3, Viðar Ernir Reimarsson 3, Andri Snær Jóhannsson 2, Jonn Rói Tórfinnsson 2, Jóhann Geir Sævarsson 2, Aðalsteinn Ernir Bergþórsson 1, Arnþór Gylfi Finnsson 1.

Varin skot: Kristján Páll Steinsson 11, Arnar Þór Fylkisson 1

Brottvísanir: 2 mínútur

Mörk Víkings: Gunnar Valdimar Johnsen 9, Kristján Orri Jóhannsson 5, Guðjón Ágústsson 3, Sigurður Páll Matthíasson 3, Igor Mrsulja 3, Halldór Ingi Jónasson 2, Styrmir Sigurðarson 2, Agnar Ingi Rúnarsson 1, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 1, Halldór Ingi Óskarsson 1.

Varin skot: Sverrir Andrésson 6, Hlynur Freyr Ómarsson 4.

Brottvísanir: 10 mínútur

  • Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Þórsarar mæta Fjölni í undanúrslitum

Þórsarar eru áfram í 9. sæti Grill 66 deildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins, en þar sem aðeins fimm lið í deildinni eru ekki ungmennalið fara fjögur af þeim fimm liðum í úrslitakeppni.

HK hefur þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og sæti í efstu deild á næsta tímabili. Víkingur, Fjölnir, Þór og Kórdrengir berjast um hitt lausa sætið. Röð þessara liða á ekki eftir að breytast í þeim tveim umferðum sem eftir eru af deildinni og ljóst að Víkingar mæta Kórdrengjum og Þórsarar munu takast á við Fjölnismenn í undanúrslitunum.

Úrslitakeppni deildarinnar hefst þó ekki fyrr en eftir páska, en lokaleikir Þórs í deildinni verða 24. mars, þegar þeir mæta ungmennaliði Selfoss á útivelli, og 31. mars þegar ungmennalið Vals mætir í Höllina á Akureyri.