Fara í efni
Þór

Erfið byrjun hjá stelpunum í Þór/KA

Andrea Mist Pálsdóttir, til vinstri, sem lék fyrsta deildarleikinn með Þór/KA í langan tíma, og Margrét Árnadóttir, sem gerði mark liðsins í kvöld. Mynd af vef Þórs/KA.

Þór/KA tapaði 4:1 fyrir Breiðabliki í kvöld í fyrstu umferð Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Vitað mál var að fyrsta verkefni sumarsins yrði erfitt á útivelli gegn Blikum og ekki var langt liðið á leikinn þegar ljóst var hvert stefndi.

Blikar komust í 1:0 strax eftir átta mínútna leik og staðan var orðin 3:0 eftir hálftíma. Fjórða mark Blika kom strax í upphafi seinni hálfleiks og eftir það vöknuðu leikmenn Akureyrarliðsins loksins til lífsins.

Þór/KA náði að skapa töluverðan usla í vítateig Breiðabliks í síðari hálfleiknum, einkum eftir föst leikatriði, en það var reyndar ekki fyrr en fáeinar mínútur lifðu leiks að Margrét Árnadóttir gerði eina mark liðsins. Stelpurnar okkar höfðu þá gert harða hríð að marki heimaliðsins og Margrét skallaði laglega í netið eftir mikla orrahríð.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna