Fara í efni
Þór

Andri Snær hættir með lið KA/Þórs

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Andri Snær Stefánsson hefur tilkynnt stjórn KA/Þórs að hann muni láta staðar nema og hætta þjálfun á liði meistaraflokks félagsins í handbolta. Andri Snær hefur stýrt meistaraflokki kvenna hjá KA/Þór undanfarin þrjú tímabil „og má með sanni segja að sá kafli hafi verið heldur betur blómlegur og voru stór skref stigin fram á við,“ segir í frétt á heimasíðu KA í morgun þar sem greint er frá tíðindunum.

Á fyrsta tímabili liðsins undir stjórn Andra, veturinn 2020 - 2021, skrifaði liðið söguna upp á nýtt í kvennahandboltanum á Akureyri en stelpurnar hömpuðu sínum fyrstu stóru titlum er liðið varð Íslandsmeistari, bikarmeistari, deildarmeistari auk þess að vera Meistari meistaranna og var því handhafi allra stóru titlanna í handboltanum á sama tíma.

Í kjölfarið náði liðið sínum næstbesta árangri veturinn 2021 - 2022 þegar stelpurnar enduðu í 3. sæti Olísdeildarinnar aðeins tveimur stigum frá toppsætinu auk þess sem liðið fór í undanúrslit úrslitakeppninnar og bikarkeppninnar.

Miklar breytingar urðu á liðinu fyrir nýliðið tímabil og fengu margir ungir leikmenn að spreyta sig „og taka mikla ábyrgð í leikjunum. Stelpurnar enduðu að lokum í 6. sæti deildarinnar og féllu úr leik í úrslitakeppninni eftir oddaleik. Það eru því bjartir tímar framundan og spennandi að sjá liðið á næstu leiktíð,“ segir á heimasíðu KA.