Kattaframboðið svarar lesendum
Kattaframboðið svarar nú spurningum lesenda Akureyri.net í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna. Öll framboðin fengu sendar spurningar og svör Kattaframboðsins við þeim öllum bárust í dag.
SPURT ER – Hver er afstaða til spítalabrekkunnar með tilliti til byggingar stefnu Akureyrarbæjar og umsagnar Minjastofnunar um málið?
SVAR – Afstaða okkar er sú að þetta gæti gengið og þetta gæti ekki gengið. Við ætlum að setjast niður og fara yfir öll mál. Fólið sem þarna býr í kring á rétt á sinni skoðun og það er undarlegt að telja svo að þau eigi það ekki.
SPURT ER – Hver er afstaða til Glerárlaugar?
SVAR – Hún á að vera áfram.
SPURT ER – Hver er afstaða til reksturs og uppbyggingar í Hlíðarfjalli með tilliti til veltu þjónustuaðila í bænum fyrstu fjóra mánuði ársins sem eingöngu er tilkomin vegna skíðaaðstöðu í Hlíðarfjalli?
SVAR – Þarna má nýta fjallið betur. Einhvern tíma var talað um kláf eða loftferju. Ef hún kæmi væri hægt að láta hana ná lengra niður í fjallið sem dæmi við Gámaþjónustuna? Hafa á toppnum skála sem gæti selt mat og geymt sem dæmi sleða fyrir þá sem vilja keyra fram í júlí á tindunum í kring. Þetta kostar peninga. Hvað getum við gert núna? Það er spurning. Við teljum svo að flest allar helgar á árinu eru hér virkar með ferðafólki, Íslendingum. Ekki er hægt að tala einungis um fyrstu fjóra mánuðina í þessum tölum. Það mætti virkja fjallið á sumrin, já engin spurning. En til þess þarf að vera eitthvað virkilega spennandi í boði þar.
SPURT ER – Hver er afstaða til gjaldfrjáls strætós?
SVAR – Það á að vera frítt í strætó og Hríseyjarferjuna.
SPURT ER – Hver er afstaða til hálkuvarna stofnæða að vetri?
SVAR – Ekkert salt. Sandur.
SPURT ER – Hver ef afstaða til rykhreinsunar gatna allt árið?
SVAR – Það á að sópa göturnar þegar spáð er langtíma þurrki, meira en 10 dögum, svo að minnka þurfi þá vinnu á vorin og mótórhjólafólk geti viðrað fáka sína á veturna einnig.
SPURT ER – Hvaða skoðun hafa framboðin á nýja miðbæjarskipulaginu þar sem á að byggja á flestum bílastæðum miðbæjarins? Kemur til greina að draga úr byggingamagni? Er stefnt að því að byggt verði í „gamaldags“ stíl, svipað og við Austurbrú, sem væri betur í samræmi við td. Innbæinn og og byggðina þar norðan við, frekar en stóra steinkumbalda?
SVAR – Gera eins og Siglufjörður gerði. Byggja í stíl Akureyrar. Alls ekki fleiri blokkir í bæinn. Siglufjarðarbær réði til sín sviðlistafólk til að „teikna“ bæinn sem tókst eins við vitum öll vel. Steinkumbalda burt. Setja 5 hæðir ofan á Eimskipshúsið og gera þar lúxusíbúðir með markað og mathöll á neðstu hæð með útsýni í allar áttir. Færa báta neðar í bót. Við tökum á móti tugþúsundum á ferðafólki sem leggur þarna að bryggju og norðanáttin á ekki séns þarna.
SPURT ER – Styðja framboðin áframhaldi saltaustur á götur Akureyrar?
SVAR – Nei alls.
SPURT ER – Hver er stefnan í fegrun bæjarins?
SVAR – Að byggja í stíl Akureyrar. En vera samt nýmóðins. Síkin sem sett voru hér fram fyrir mörgum árum er ein besta og fallegasta hugmynd sem hefur komið hér fram að okkur finnst.
SPURT ER – Allt of margar stórar aspir er víða inni í bænum. Má ekki fella/ grisja þessi skrímsli? Efst í Víðilundi eru aspir svo hávaxnar að íbúar á fimmtu hæð njóta ekki útsýnis.
Kynnið ykkur góð áhrif af góðu/grænu útsýni og rannsóknir sem Páll Jakob Líndal sem er umhverfissálfræðingur hjá HÍ hefur gert, og sannar góð áhrif á heilsu fólks.
SVAR – Ef þetta skerðir útsýni þeirra sem þarna búa og eru með útsýni, þá skal fellt eða snyrt. Varðandi rannsóknir Páls: Skal gert.
SPURT ER – Er ætlunin að standa við samþykkt um að lausaganga katta verði ekki heimil frá ársbyrjun 2025?
SVAR – Nei, við þurfum að hnekkja þessu máli og vinna fyrir þennan minnihlutahóp sem heita kettir. En eru samt í meirihluta hér í bæ. Kattaeigendur ættu ekki að kjósa annað.
SPURT ER – Er staðfastur vilji til þess að tryggja almenningi áfram svipaðan aðgang að Glerárlaug og verið hefur á liðnum árum?
SVAR – Áfram Glerárlaug. Með tilkomu uppbyggingar þarna í kring er galið að ætla að skerða þessa þjónustu.
SPURT ER – Er vilji til þess að draga til baka, a.m.k. að einhverju leyti, nýorðnar breytingar á bílastæðafyrirkomulagi í miðbæ Akureyrar, t.d. láta gamla klukkufyrirkomulagið gilda fyrir þá sem það vilja?
SVAR – Fyrst. Þá skiljum við ekki af hverju og hvernig Akureyrarbær lét ekki smíða sitt eigið app. Kostar ekki mikið og greiðist upp á tveimur árum.
Númer tvö. Þá er nú þegar til „Leggja bíl“ app sem er tilbúið til notkunar framleitt af akureyrsku fyrirtæki sem hefur sagt að gjöldin sem Akureyrarbær greiðir í dag til hinna yrðu aldrei nokkurn tíma jafn há.
Þrjú. Ef ráðist var í þetta verkefni af hverju var ekki leitað til fagaðila hér í bænum sem smíða svona öpp eða eiga að tilbúið frekar en að samþykkja okurgeiðslur til annarra fyrirtækja. Hvað með útsvar þarna?
Fjögur. Við leggjum til að gera samning við þetta fyrirtæki um að nota þeirra app og greiða þá mun lægri gjöld og leyfa ferðafólki að nota hin öppin. Gefa okkur Akureyringum færi á að setja meira í vasa Akureyrarbæjar með notkum apps sem er í bænum.
Fimm. Ef þessu verður ekki breytt, þá erum við komin hring, og leggjum við til að gömlu klukkurnar komi aftur. Við verðum að fá eitthvað í vasann fyrir þetta. Ekki henda þessu úr bænum. Hér er gefins peningur frá Akureyrarbæ. Gjörðu svo vel! Galið.
SPURT ER – Hvort verður á undan í byggingu, viðbygging Ráðhúss eða staður og uppbygging samgöngumiðstöðvar fyrir SVA, BSO, landsbyggðarstrætó, sem er illa staðsett í Strandgötu, og rútur?
(Smá sagnfræði: Það má fara 25 ár aftur í timann með umræðuna um samgöngumiðstöð, en ekkert er orðið að veruleika. Fyrir aldamót voru uppi hugmyndir að kaupa húsnæði það sem varð grunnurinn að byggingum Átaks. Var ætlunin að flytja þangað starfsemi Umferðarmiðsstöðvar, upplýsingarmiðstöðvar ferðamanna og BSO).
SVAR – Það verður að ráðast í BSO og SVA undir eins. Það er ómanneskjulegt að láta SVA starfsfólk húka í upphituðum gámum milli keyrslu. Myndi einhver sem tók þá ákvörðun sætta sig við þær aðstæður? Ég er ekki viss.
Það má taka þessa umræðu upp aftur og vinna hana þannig að hún klárist. Það er eitt að ætla að tala um hlutina og láta þá bíða. Að vera ekki með upplýsingamiðstöð í bæjarfélagi sem leggur grunn sinn í ferðafólk er skrítið. Þessi upplýsingamiðstöð þarf að opna aftur og það strax eftir kosningar. Það voru líklega einhver klaufaleg mistök gerð að loka henni og eitthvað sem þarf að lagfæra.
SPURT ER – Krossanesborgir er náttúruperla okkar Akureyringa. Það þarf að laga göngustíga og setja bekki að mínu mati. Hver er skoðun framboðanna á því?
SVAR – 100% sammála
SPURT ER – Ég hjóla mikið, og mér finnst vanta hjólageymslu eða svæði sem er hægt geyma hjólið meðan maður er að erindast í miðbænum. Hvað segja framboðin um það?
SVAR – Hjólreiðar aukast með hverju ári og að ætla að hvetja til þess að nota hjólið sitt meira og gera ekki hjólaageymslur þegar rignir eða snjóar er ekki til fyrirmyndar. Hjólageymslur verða að vaxa á Akureyri.
SPURT ER – Enginn flokkanna er með einhverja stefnu sem þeir ætla að leiða okkur gagnvart, engin framtíðarsýn. Hvert á að stefna með bæinn? Þetta er allt hugmyndir gagnvart einhverjum málaflokkum. Það er rekstur. Það sem pólitíkin þarf að bjóða upp á er einhver hugmynd, einhver framtíðarsýn.
Því spyr ég: Hvað verður Akureyri eftir 25 ár og hvernig ætlið þið að leiða okkur þangað? Þetta er í rauninni bara beisikk pólitísk spurning því ef menn vita ekki svarið þá eiga þeir ekki að vera í pólitík.
SVAR – Við höfum hvatt til frekari pólítíkar með þetta og teljum að nokkur framboð eru ekki með neina skýra pólítik í þessum og fleiri málum. Sem er alls ekki. Okkar sýn er þessi. Við búum á Akreyri eins og Akureyri er í dag. Hér líður okkur vel í dag og það er ástæða fyrir því að viljum búa hér.Við þurfum að hugsa þetta aðeins. Að ætla að byggja hratt er ekki eitthvað sem við höfum áhuga á. Akureyri er okkar bær og hann vex í takt við það sem hér gerist. Ef mig langar í stórborgarhátt, þá flyt ég þar sem fleira fólk er og orkan okkar önnur.
SPURT ER – Hver er raunveruleg skuldastaða bæjarsjóðs, og b liður: hvernig ætla menn að leysa þá stöðu?
SVAR – Við ætlum auðvitað að setja okkur inn í þau mál, og stöðva allt sem heitir að flýta sér og eitthvað sem við þurfum ekki. Notum heldur peningana í að gera eitthvað skemmtilegt.
SPURT ER – Þegar maður talar við þá sem vita um stöðu bæjarsjóðs þá verða þeir alltaf grafalvarlegir, tala um að staðan sé grafalvarleg og hún verði stóra málið næsta kjörtímabil. En út á við eru þessi sömu aðilar að beina kastljósinu frá þessari umræðu.
Mín spurning til allra framboð er því þessi:
Hver er skuldastaða bæjarsjóðs og hvað finnst þeim um hana? Er hún í eðlilegu samhengi við rekstur, er hún ekkert til að hafa áhyggjur af eða er hún eitthvað sem taka þarf sérstaklega á og þá hvernig?
SVAR – Bærinn var rekinn með 752 milljón króna hagnaði. Við þurfum að fá útskýringar á því af hverju hún er alvarleg.
SPURT ER – Hver er stefna framboðanna í skólamálum? (Væri gaman að fá annað en hið einfalda svar að þar sé unnið frábært starf og stefnt að því að svo verði áfram!)
SVAR – Skólamál. Hvatapeningar niður í þriggja ára og 60.000 árlega Leikskóli frír. Matur í grunnskóla frír. Þannig komum við á móts við hópinn sem á alltaf minnst af peningum og er að koma sér fyrir. Það þarf að efla skólastarf og taka betur á eineltismálum. Það ætti að koma á móts við nemendur sem ekki eru að ná að sýna sitt rétta andlit innan veggja skólanna í að virkja áhugamálin hjá þeim og leyfa þeim að vinna mögulega tvisvar í viku með áhugamálin hjá einhverju góðu fyrirtæki á Akureyri.
SPURT ER – Hvernig væri að byggja einn mjög flottan fyrsta flokks Akureyrarvöll, fjölnota „stadium“ til framtíðar fyrir alla Akureyringa með öllu sem þarf, á sama stað og gamli er?
- Frekar en að rembast í einhverjum þokkalegum aðstöðum fyrir 2 eða hugsanlega fleiri lið, þá að hugsa stórt og til framtíðar fyrir alla og með skynsemi í huga.
- Öll efstu fótboltaliðin á Akureyri noti hann fyrir keppnisleiki, hvort sem liðin eru 1-2-3-4 eða hvað mörg.
- Völlurinn væri fyrsta flokks og landsliðin okkar gætu spilað landsleiki þar.
- Okkar Akureyrarlið gætu spilað Evrópuleiki og allt slíkt sem gæti þurft.
- Stór bílakjallara undir öllu og yfirbyggð stúka, mögulega hægt að loka alveg yfir.
SVAR – Einn völl fyrir bæði liðin væri draumur. En við verðum að taka þá stöðu þegar við erum búin með Þórssvæði og KA svæði sem eru þegar komin af stað. Það er erfitt að hugsa þetta núna þegar tveir vellir eru þegar byggðir. Klára þá fyrst og hratt og svo taka samtalið.
SPURT ER – Ég sá skrifað að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að lækka álögur á bæjarbúa og spyr: Væri ekki best að falla frá nýlögðum álögum á þá er leggja bifreiðum á bifreiðastæðum bæjarins? Þó ekki væri til annars en að forða okkur frá að greiða þjónustugjald til tölvufyrirtækja í Reykjavík (parka) í Svíþjóð (easy park.) .Las að þjónustugjöld væru 86 og 95 krónur til þessa aðila í hvert skipti sem einhver þarf að leggja í gjaldstæði. Þetta eru óþarfar álögur. Best að hafa stæðin frí eins og verið hefur í 17 ár ef ég man rétt.
SVAR – Sama og svarið við bílastæðum hér að ofan
SPURT ER – Háspennulína, Blöndulína 3, er stórmál en ég er algjörlega mótfallinn því að það verði loftlína ofan við Giljahverfi og Móahverfi og að Rangárvöllum. Aðalskipulag Akureyrar gerir ráð fyrir að línan fari í jörðu frá sveitarfélagsmörkum og að Rangárvöllum. Fulltrúi Landsnets sagði í RÚV um daginn að ÞAÐ KÆMI EKKI TIL GREINA að leggja línuna í jörðu á þessum kafla.
Kjósendur verð að fá skýr svör frá öllum framboðum um þetta. Kemur til greina að mati framboðanna að falla frá því sem segir í aðalskipulagi bæjarins og gefa eftir þannig að Landsnet fái að hafa þetta loftlínu. Ég veit að það er stórmál að fá þetta rafmagn en líka STÓRMÁL að vita hvort komi til greina að bærinn eftir. Ég verð að vita þetta áður en ég greiði atkvæði.
SVAR – Veit ekki af hverju hann segir það ekki koma til greina. Mögulega pólitísk ákvörðun. En hann verður þá að rökstyðja það betur og þá líka fyrir okkur. Við munum greiða atkvæði gegn því að hafa þetta loftlínu.
SPURT ER – Hvað hyggjast framboðin gera til að styrkja stöðu hinsegin og kynsegin fólks á Akureyri? Vita hvernig þau ætla að tryggja fjölbreytileika á Akureyri og tryggja mannréttindi þessa hóps og möguleika til að njóta lífsins á Akureyri, í skólum, íþróttum, félagsstarfi og annars staðar í samfélaginu?
Ég sá í kynningarefni framboðanna í gær að aðeins Píratar snerta á málefnum þessa hóps sem er hratt stækkandi og skrýtið að akureysku framboðin skauti alveg framhjá þessu málefni.
SVAR – Við skautum alls ekki framhjá mannréttindum og sérstaklega ef verið er að brjóta á þeim. Þess vegna erum við flokkur. Ef miður er fyrir þessa hópa að ná kjölfestu í íþróttamálum, skólum, félagsstarfi og víðar þá setjumst við niður með þeim, hverjum sem upplifir það sama, og hlustum á það sem þeir telja verði að laga. Við getum ekki vitað það. En við setjumst niður og hlustum. Og svo bregðumst við við. Við vinnum fyrir ykkur. Þið vinnið ekki fyrir okkur.
SPURT ER – Stjórn Samtaka – svæðisráðs foreldra nemenda í grunnskólum Akureyrar, óskar eftir að framboðin til sveitarstjórnarkosninga, leggi fram stefnu sína í málefnum grunnskólanna og það verði birt hjá ykkur.
SVAR – Stefna okkar er þessi. Við stofnun flokksins okkar þá varð til framboð sem ætlar í fyrsta sinn í langan tíma hér á Íslandi að vinna fyrir fólkið. Ekki aðeins það fólk sem kýs okkur, heldur alla. Með þvi að komast inn fáum við umboð sem er umboð fyrir ykkur.
Við myndum gera eins og við ætlum að gera með öllum öðrum samtökum eða ráðum sem til okkar leita. Við setjumst niður og hlustum og ræðum hvað þarf að laga. Forgangsröðum og förum svo að vinna.