Fara í efni
Sveitarstjórnarmál

Er lífeyrissjóðunum treystandi?

Sæll og blessaður Jóhann Steinar. Takk kærlega fyrir að virða mig svars. Ég kann að meta slíkt. En ég er enn við sama heygarðshornið. Mér finnst nefnilega stundum svolítið djúpt á sanngirninni hjá lífeyrissjóðunum okkar.

Þú segist trúa því að enginn vilji skera makalífeyri við nögl. Staðreyndin er þó önnur, ekki satt? Eða er það rangt að makalífeyrir sé yfirleitt greiddur í fimm ár og þá fyrst 50% af áunnum réttindum hins látna (þrjú ár hjá Stapa) og síðan 25% (tvö ár hjá Stapa)?

Er lífeyrissjóðunum í sjálfsvald sett, Jóhann Steinar, að ákveða reglur um makalífeyri?

Þessu tengt: Er það rétt að yfir 60% félagsmanna Stapa sé með lífeyristekjur innan viðmiðunarmarka Tryggingastofnunar um hámarks ellilífeyri (sem mér sýnist vera kr. 278.271)?

Þú talar um að hækki ein réttindi verði að skerða önnur. Ég spyr: Um hvað snerist hinn „tryggingafræðilegi útreikningur“ þegar öll innkoma lífeyrissjóðanna – afsakaðu orðalagið – varð í formi skattafrestunar sem jók ráðstöfunarfé þeirra umtalsvert? Svo ég tali nú ekki um þegar mótframlag vinnuveitanda fór úr 8% í 11,5%. Keyptu sjóðirnir þá ef til vill hærri tekjutryggingar? Sem ég fávís skil reyndar ekki – þurfa lífeyrissjóðirnir okkar virkilega að kaupa tryggingar? Þú afsakar þó ég spyrji svona eins og álfur út úr hól.

Til að bæta gráu ofan á svart get ég ekki betur séð en að lífeyrissjóðir virði þá skyldu sína að vettugi að innheimta samningsbundið mótframlag launagreiðanda fyrir hönd þeirra félagsmanna sinna sem orðnir eru sjötugir.

Ef þetta er rétt, Jóhann Steinar – þú leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál – læðist sú hugsun óneitanlega að mér hvort lífeyrissjóðirnir beri alltaf hag skjólstæðinga sinna fyrir brjósti.

Með þökk fyrir birtinguna

Jón Hjaltason skipar 3. sæti á lista Flokks fólksins í komandi sveitastjórnarkosningum