Fara í efni
Samherji

Bilun í skrúfubúnaði og Vilhelm varð vélarvana

Vilhelm Þorsteinsson EA 11, uppsjávarskip Samherja. Ljósmynd af vef Samherja.

Bilun varð í dag í skrúfubúnaði Vilhelms Þorsteinssonar EA 11, uppsjávarskips Samherja, með þeim afleiðingum að skipið tók að sigla stjórnlaust aftur á bak og varð síðan vélarvana.

Þetta gerðist laust fyrir klukkan 13 þegar skipið var að koma að hafnarmynninu í Neskaupstaðarhöfn.

„Við þetta rak skipið upp að bröttum sandkanti sem er rétt sunnan við hafnarmynnið. Barði NK 120, skip Síldarvinnslunnar, kom strax til aðstoðar og dró Vilhelm að bryggju,“ segir á vef Samherja.

„Ekki er vitað um neinar skemmdir en eftir er að finna út hvað gerðist í vélbúnaðinum. Samkvæmt venju var Landhelgisgæsla umsvifalaust upplýst um hvað gerðist.“