Fara í efni
Óveður

Mjög slæm veðurspá fyrir hádegi þriðjudag

Mjög slæmu veðri er spáð fyrir hádegi á morgun, þriðjudag, og hefur verið Ríkislögreglustjóri af þeim sökum lýst yfir óvissustigi Almannavarna í samráði við lögreglustjóra á öllu landinu.

  • Veðrið á Akureyri og nágrenni verður verst frá klukkan 8.00 til klukkan 11.00, skv. spánni. Veðurstofan segir um Norðurland eystra á því tímabili:
  • Suðvestan stormur eða rok og talsverð úrkoma. Sunnan og suðvestan 23-28 metrar á sekúndu og talsverð snjókoma. Mjög snarpar vindhviður við fjöll, staðbundið yfir 40 metra á sekúndu. Fólki er bent á að tryggja muni utandyra. Ekkert ferðaveður á meðan veðrið gengur yfir.
  • Ekki verður flogið á milli Akureyrar og Reykjavíkur fyrir hádegi.

„Fyrsta appelsínugula viðvörun Veðurstofunnar tekur gildi kl. 6:00 í fyrramálið. Góðu fréttirnar eru að veðrið fer hratt yfir og síðasta appelsínugula viðvörunin rennur úr gildi um hádegisbilið,“ segir á vef Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra að kvöldi mánudags.

„Almannavarnir biðla til almennings um að ganga frá lausamunum til að fyrirbyggja foktjón. Einnig er mikilvægt að byggingarfyrirtæki hugi að sínum svæðum og geri viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir og draga úr tjóni. Miklar líkur eru á að veðrið muni hafa áhrif á samgöngur og eru vegfarendur beðnir um að vera ekki á ferðinni að óþörfu á þeim svæðum þar sem veðrið er verst hverju sinni. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.“

  • Á vefnum umferdin.is er hægt að fylgjast með rauntímaupplýsingum um færð á vegum.
  • Á vefnum vedur.is er eins og alltaf hægt að fylgjast með veðrinu.