Fara í efni
Körfuknattleikur

Fara Þórsstelpurnar í bikarúrslitahelgina?

Lore Devos skorar fyrstu stig Þórs í efstu deild í 45 ár, þegar liðið vann Stjörnuna í fyrstu umferð Subway deildarinnar í haust. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið Þórs í körfubolta fær Stjörnuna í heimsókn í dag í átta liða úrslitum VÍS-bikarkeppninnar. Sigurliðið tryggir sér sæti í bikarveislunni sem svo er kölluð og fer fram í Smáranum í Kópavogi; undanúrslit og úrslit bæði karla- og kvennaliða.

Lið Þórs og Stjörnunnar eru bæði nýliðar í Subway deildinni, efstu deild Íslandsmótsins. Þau börðust um sigur í 1. deildinni í vor og þar hafði Stjarnan betur í fimm leikja einvígi.

Stjarnan er í þriðja sæti Subway deildarinnar eins og er, hefur unnið níu leiki af 14 í vetur, en Þór hefur unnið sjö leiki af 14 og er í 5. sæti. Liðin mættust í fyrstu umferð deildarinnar í haust á Akureyri og þar höfðu Þórsarar betur.

Aðrir leikir í átta liða úrslitum bikarkeppni kvenna eru: Valur - Grindavík, Njarðvík - Hamar, Haukar - Keflavík.

Leikurinn hefst í Höllinni kl. 18.00 og full ástæða er til að hvetja fólk til að fjölmenna og hvetja Stelpurnar okkar til dáða.