Fara í efni
Knattspyrna

Þór/KA bikarmeistari 2. flokks í knattspyrnu

Þór/KA/Völsungur/THK, bikarmeistarar í 2. fokki U20 í knattspyrnu 2024. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Stelpurnar í 2. flokki U20 í fótboltanum hjá Þór/KA eru tvöfaldir meistarar þetta árið eftir 4-1 sigur á Selfyssingum í úrslitaleik bikarkeppninnar á Greifavellinum í gærkvöld. Liðið keppir undir merkjum Þórs/KA/Völsungs/THK og hefur gert það gott í sumar.

Þór/KA komst yfir um miðjan fyrri hálfleik með marki fyrirliðans, Emelíu Óskar Kruger, en Embla Katrín Oddsteinsdóttir jafnaði fyrir Selfyssinga þegar um fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum. Jafnt var í leikhléi. Okkar stelpur voru ákveðnari í seinni hálfleiknum og nýttu færin betur en í þeim fyrri. Karen Hulda Hrafnsdóttir skoraði annað mark liðsins snemma í seinni hálfleiknum og Angela Mary Helgadóttir bætti við þriðja markinu skömmu síðar eftir hornspyrnu. Sigurinn var þó ekki í höfn og munaði litlu að gestunum tækist að minnka muninn og komast aftur inn í leikinn. Fjórða markið kom þegar stutt var eftir af leiknum, en þá skoraði Bríet Fjóla Bjarnadóttir með fallegu skoti utarlega úr teignum. Lokatölurnar urðu því 4-1.

Það er áhugavert að skoða leikskýrsluna hjá Þór/KA-liðinu því bæði í leiknum í gær og í öðrum leikjum liðsins í sumar hafa stelpur úr 3. og 4. flokki komið mikið við sögu. Tvær af þeim sem skoruðu mörk liðsins í gær eru enn gjaldgengar í 3. og 4. flokki. Karen Hulda er að klára yngra árið í 3. flokki og Bríet Fjóla eldra árið í 4. flokki. Akureyringar þurfa því vart að kvíða framtíðinni á þessum vettvangi.

Nánar er fjallað um leikinn á vef félagsins, thorka.is.