Fara í efni
Knattspyrna

KA gegn HK – „Veður er bara hugarástand“

Jakob Snær Árnason, lengst til vinstri, Ingimar Thorbjörnsson Stöle og Birgir Baldvinsson fagna marki þess fyrstnefna þegar KA og HK gerðu 1:1 jafntefli á Greifavellinum í fyrrasumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn hefja í dag leik í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Það eru leikmenn HK úr Kópavogi sem koma í heimsókn á Greifavöllinn sunnan við KA-heimilið. Athygli skal vakin á því að flautað verður til leiks klukkan 13.00. Upphaflega var leikurinn settur á kl. 17.00 en ákveðið í gær að flýta honum vegna þess að veðrið verður líklega verra seinni partinn en það er nú.

„Eins og góður maður sagði þá er veður einfaldlega hugarástand, smá kakó og þetta verður veisla,“ skrifaði Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA á samfélagsmiðlinum X í morgun og birti myndband af svæðinu; sjá skjáskot úr því hér að neðan.

Veður er þokkalegt á Akureyri núna, örlítið hefur snjóað í morgun og hann blæs aðeins úr norðaustri, en aðstæður ættu að geta orðið viðunandi meðan á leiknum stendur.

Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA birti myndband á samfélagsmiðlinum X í morgun þar sem einn sjálfboðaliða KA blés snjó úr sætum í áhorfendastúkunni við KA-völlinn. Skjáskot úr myndbandinu.  

Spennan hefur magnast dag frá dagi eins og venjan er þegar Íslandsmótið nálgast. Fjölmiðlar og fyrirliðar, þjálfarar og formenn félaga Bestu deildarinnar spá því að KA-menn verði um miðja deild þegar upp verður staðið í haust; þeim er ýmist spáð sjötta eða sjöunda sæti, en hvort eitthvað er að marka niðurstöðu úr þeim árlega samkvæmisleik kemur í ljós.

Hallgrímur Mar Steingrímsson, besti maður KA síðustu ár, er veikur eins og Akureyri.net greindi frá á dögunum – sjá hér – og missir af fyrstu leikjum deildarinnar. Það er vissulega afar bagalegt fyrir KA en á móti kemur að framherjinn Viðar Örn Kjartansson kom til liðsins á dögunum. Hann hefur verið iðinn við að skora á ferlinum, fróðlegt verður að sjá hvort hann er í standi til að spila í dag og hvernig hann smellur þá inn í liðið.

Þrátt fyrir að veðrið sé ekki með besta móti er ástæða til þess að hvetja stuðningsmenn KA til að mæta á leikinn og hvetja sína menn til dáða; bara að finna föðurlandið, stóru úlpuna, húfu og vettlinga – og fá sér kakó, eins og framkvæmdastjórinn sagði! 

Liðin mættust fjórum sinnum í fyrrasumar, í bikarkeppninni og þrisvar í Bestu deildinni; heima og að heima í hefðbundinni deildarkeppni og á Greifavellinum í keppni liðanna í neðri hlutanum:

  • HK - KA 1:2

Besta deildin 7. maí. Ásgeir Sigurgeirsson gerði bæði mörk KA.

  • HK - KA 1:3

Bikarkeppnin, 16-liða úrslit, 18. maí. Ívar Örn Árnason, Hallgrímur Mar Steingrímsson og Bjarni Aðalsteinsson skoruðu fyrir KA.

  • KA - HK 1:1

Besta deildin 30. júlí, Jakob Snær Árnason gerði mark KA.

  • KA - HK 1:0

Besta deildin 7. október, Harley Bryn Willard skoraði.

Leikmenn KA og HK hafa mæst við óvenjulegar aðstæður. Liðin gerðu 1:1 jafntefli á Akureyrarvelli 24. september árið 2020 þegar snjóaði með köflum í miklu roki. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson