Fara í efni
KA

Verða KA-menn í efri hluta deildarinnar?

Elvar Árni Aðalsteinsson hefur gert þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum KA og bauð upp á einkennisfagnið! KA-menn vonast til þess að framherjinn fari handahlaup í Árbænum í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Í dag kemur í ljós hvort KA verður í hópi sex efri liða Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, þegar henni verður skipt í tvennt. KA mætir Fylki í Reykjavík, verður að sigra og jafnframt að treysta á önnur lið til að eiga möguleika á sæti í efri hlutanum. Telja  verður miklar líkur á að það takist.

Síðasta umferð hinnar hefðbundnu deildar fer fram í dag og að því loknu tekur við framlenging þar sem efri liðin halda áfram keppni um Íslandsmeistaratitilinn og sæti í Evrópukeppni en þau neðri sex um að falla ekki. Keppni um sjálfan meistaratitilinn er reyndar nánast lokið og Víkingar gætu tryggt sér titilinn í dag, svo miklir eru yfirburðir liðsins.

KA-menn eru í æsispennandi baráttu um síðasta sætið í efri hlutanum. FH er í fimmta sæti með 31 stig, KR er í sjötta sæti, einnig með 31 stig en er með lakari markatölu, og KA er í sjöunda sæti með 28 stig.

Þetta eru leikirnir sem skipta KA-menn máli í dag:

  • Fylkir - KA
    KA er með átta mörk í mínus.
  • Breiðablik - FH
    FH er með fimm mörk í mínus.
  • ÍBV - KR
    KR er með sjö mörk í mínus.

Gríðarlega spennandi verður að fylgjast með lokaumferðinni því markamunur gæti ráðið úrslitum. 

Lykilatriði er að KA fái þrjú stig í Árbænum. Annars á liðið ekki möguleika á sæti í efri hlutanum

Tökum dæmi. Færu leikirnir svona kæmust FH og KA í efri hlutann en KR sæti eftir í neðri hlutanum:

  • KA vinnur Fylki með tveggja marka mun - KA yrði með 31 stig og sex mörk í mínus
  • Breiðablik vinnur FH með eins marks mun - FH yrði með 31 stig og sex mörk í mínus
  • ÍBV vinnur KR - KR yrði með 31 stig með fleiri mörk í mínus en KA og FH

KA gæti líka endað í fimmta sæti vinni liðið í Árbænum og FH tapi með það miklum mun að markatala liðsins verði verri en KA. Þá skiptir ekki máli hvernig fer í Eyjum. Sigri FH hins vegar Breiðablik eða liðin geri jafntefli má KR ekki fá stig í Eyjum til að KA komist í efri hlutann.

Skv. reglugerð KSÍ ræðst staða liða í deildinni af þessum atriðum, í þessari röð:

  • Fjöldi stiga
  • Markamismunur (skoruð mörk að frádregnum fengnum mörkum)
  • Fjöldi skoraðra marka
  • Fjöldi stiga í innbyrðis leikjum
  • Markamismunur í innbyrðis leikjum
  • Fjöldi skoraðra marka í innbyrðis leikjum
  • Fjöldi skoraðra marka á útivelli í innbyrðis leikjum

Leikir dagsins hefjast allir kl. 14.00, og verða allir sýndir beint á íþróttarásum Stöðvar 2.

  • Fylkir - KA
  • Breiðablik - FH
  • Stjarnan - Keflavík
  • Fram - Víkingur
  • ÍBV - KR
  • Valur - HK