Fara í efni
KA

KA vann HK í síðustu umferðinni – MYNDIR

Bakvörðurinn Ingimar Torbjörnsson Stöle hefur leikið mjög vel með KA síðari hluta sumars. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA sigraði HK 1:0 í lokaumferð Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, sem fram fór á laugardaginn. KA hafði þegar tryggt sér efsta sætið í neðri hluta deildarinnar, 7. sætið.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna á vef KSÍ

_ _ _

FYRSTI LEIKUR ÍVARS
Markvörðurinn Ívar Arnbro Þórhallsson var í byrjunarliði KA í fyrsta skipti í Bestu deildinni. Þessi 17 ára unglingalandsliðsmaður hafði einu sinni áður spilað alvöru leik með meistaraflokki; hann lék í 5:0 sigri KA á liði Uppsveita í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar í fyrr í sumar.


_ _ _

MJÖG GÓÐ BYRJUN KA
KA-menn höfðu mikla yfirburði fyrstu 10 mínúturnar og voru raun mun ákveðnari í fyrri hálfleik. Litlu munaði að Ívar Örn Árnason kæmist í gott færi strax á þriðju mínútu, Jakob Snær Árnason fékk tvö góð skotfæri, fyrst á fimmtu mínútu og aftur á 23. mín. en hitti markið í hvorugt skiptið, í millitíðinni áttu bæði Harley Willard og Jóan Símun Edmundsson góð skot sem ekki rötuðu rétta leið.


_ _ _

1:0 - HARLEY WILLARD SKORAR
Hallgrímur Mar Steingrímsson ógnaði marki HK en Arnar Freyr Ólafsson bjargaði í horn. Hallgrímur tók hornspyrnuna, sendi inn á miðjan teig þar sem Færeyingurinn Jóan Símun Edmundsson skallaði boltann fyrir fætur Harley Willard sem var grunsamlega óvaldaður. Willard skoraði með föstu skoti í tómt markið, því Arnar Freyr var ekki vel staðsettur. Þetta var á 35. mín.


_ _ _

GOTT SKOT EN FRAMHJÁ
Brynjar Snær Pálsson átti hörkuskot að marki KA úr miðjum vítateignum á 60. mín. Boltinn smaug rétt framhjá fjærstönginni en Ívar Arnbro í markinu var með allt á hreinu.


_ _ _

HARKALEGUR ÁREKSTUR
Hallgrímur Mar sendi laglega inn fyrir vörn HK á 81. mín, Pætur Petersen og Arnar Freyr markvörður HK reyndu báðir að ná boltanum en rákust harkalega saman utan við vítateig. Hvorugum varð meint af og HK fékk aukaspyrnu.


_ _ _

VALDIMAR BYRJAÐI ANNAN LEIKINN Í RÖÐ
Valdimar Logi Sævarsson var í byrjunarliði KA í annað skipti í Bestu deildinni. Hann hóf einnig leikinn á undan, gegn Fram. Þegar Valdimar fór af velli á 82. mín. kom Breki Hólm Baldursson í hans stað.  Þetta var fyrsti leikur hans með meistaraflokki. Valdimar er 17 ára en Valdimar árinu eldri.


_ _ _

BIKAR FYRIR 7. SÆTIÐ!
KA-menn fengu bikar fyrir að verða í efsta sæti neðri hluta Bestu deildarinnar. Óneitanlega sérstakt, enda fannst sumum þeirra það dálítið skondið ...