Fara í efni
KA

KA-strákarnir fóru létt með Eyjamenn – MYNDIR

Þorri Mar Þórisson fagnar marki sínu gegn ÍBV í gær; þetta var annað mark bakvarðarins í jafn mörgum leikjum í deildinni í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA vann mjög öruggan 3:0 sigur á ÍBV í gær í annarri umferð Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikið var á Greifavellinum sunnan við KA heimilið í sól og blíðu.
_ _ _

FYRIRLIÐINN BRAUT ÍSINN
Þrír KA-drengjanna frá víkinni við Skjálfandaflóa áttu fyrsta mark leiksins skuldlast. Hrannar Björn Steingrímsson sendi laglega inn á teig frá vinstri kanti á 26. mínútu, Hallgrímur Mar bróðir hans stakk sér inn fyrir vörnina og sendi til baka út í teiginn þar sem Ásgeir Sigurgeirsson tók boltann á brjóstkassann og skoraði með hárnákvæmu skoti efst í vinstra hornið. Vel gert hjá Húsvíkingunum þremur.

_ _ _

MARK – EKKI TALIÐ MEÐ
Daníel Hafsteinsson kom boltanum í mark ÍBV á lokasekúndum fyrri hálfleiks. Hallgrímur Mar sendi fyrir frá hægri og Daníel kom boltanum í markið af örstuttu færi en var rangstæður.

_ _ _

BJARNI KEMUR KA Í 2:0
Hallgrímur Mar Steingrímsson var enn á ferðinni á 50. mín. þegar hann splundraði vörn ÍBV með fallegri sendingu, Bjarni Aðalsteinsson (númer 77) komst á auðan sjó hægra megin í teignum og skoraði örugglega neðst í fjærhornið. Þetta var annað mark Bjarna fyrir KA í efstu deild, hitt gerði hann á Greifavelli númer 1 – Akureyrarvelli við Hólabraut – gegn ÍA í ágúst 2021.

_ _ _

ÞORRI TEKINN VIÐ AF NÖKKVA?
Hægri bakvörðurinn Þorri Mar Þórisson kom KA í 3:0 á 84. mín. Eftir laglegt spil KA við vítateiginn fékk Þorri boltann vinstra megin í teignum og skoraði örugglega. Hann hefur þar með skorað í tveimur fyrstu leikjum Íslandsmótsins. Nökkvi Þeyr, tvíburabróðir hans, var sjóðandi heitur í fyrrasumar þegar hann gerði 17 mörk fyrir KA; kannski bakvörðurinn sé ekki síðri markaskorari en framherjinn eftir allt saman!

_ _ _

MUNAÐI LITLU HJÁ WILLARD
Harley Willard, sem kominn á fyrir Hallgrím Mar á 83. mín. var nálægt því að koma KA í 4:0 rétt fyrir leikslok. Gott skot hans small í þverslánni og fór þaðan í bak Jóns Kristins markvarðar.