Fara í efni
KA

Handboltalið Þórs hefur leik á morgun

Úrslitaeinvígi Þórs og Fjölnis síðastliðið vor um seinna lausa sætið í efstu deild var jafnt, spennandi og skemmtilegt þó endirinn hafi verið grátlegur fyrir Þórsara. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Karlalið Þórs í handknattleik hefur leik í næstefstu deild Íslandsmótsins, Grill 66 deildinni, á morgun, föstudaginn 20. september. Þórsarar mæta Víkingi í Safamýri í opnunarleik deildarinnar og hefst leikurinn kl. 18.

Þórsarar enduðu í 5. sæti Grill 66 deildarinnar í fyrra, spiluðu 18 leiki í deildinni, unnu níu, gerðu tvö jafntefli, töpuðu tveimur og urðu neðstir þeirra fjögurra liða sem máttu keppa um sæti í efstu deild. Önnur lið í deildinni voru ungmennalið félaga sem spila í efstu deild. Að lokinni deildarkeppninni fór liðið í 2. sæti, ÍR, beint upp í Olísdeildina þar sem ungmennalið Fram vann deildina. Fjölnir, Hörður og Þór léku um annað laust sæti. Fyrst mættust Þór og Hörður þar sem Þórsarar unnu 2-1 í oddaleik á Ísafirði. Næst mættu Þórsarar Fjölni í úrslitarimmu um það hvort liðið fylgdi ÍR upp um deild. Þar höfðu Fjölnismenn betur í oddaleik, 3-2.


Þórsarar misstu af sæti í efstu deild eftir eins marks tap í oddaleik á móti Fjölni í Grafarvoginium í vor. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Sumarið hefur verið viðburðaríkt og hefur félagið nú fengið gamla liðsmenn aftur heim, bæði að sunnan og frá liðum erlendis. Tilkynningar um nýja liðsmenn tóku reyndar að berast strax í mars. Þar eru líklega stærstu tíðinin að Oddur Gretarsson er mættur aftur í raðir uppeldisfélagsins, en auk hans einnig Hafþór Már Vignisson, Þórður Tandri Ágústsson og Bergvin Gíslason, sem allir eiga að baki meistaraflokksleiki með Þór og/eða Akureyri handboltafélagi. Það kom því ekki á óvart að þjálfarar og forráðamenn liðanna í deildinni spá Þórsurum efsta sætinu. Þá er Kristján Gunnþórsson kominn aftur til félagsins eftir dvöl hjá KA.

Félagið hefur að auki endursamið við lykilleikmenn og má nefna Aron Hólm Kristjánsson, Brynjar Hólm Grétarsson og Arnór Þorra Þorsteinsson. Halldór Örn Tryggvason stýrir liðinu áfram og hefur fengið Gunnar Líndal Sigurðsson inn í þjálfarateymið sér til aðstoðar.


Páll Þorgeir Pálsson, formaður handknattleiksdeildar Þórs, og Þórður Tandri Ágústason. Þórður Tandri hefur snúið aftur heim eftir þriggja ára dvöl hjá Stjörnunni. 

Föstudagur 20. september kl. 20 í Safamýri
VÍKINGUR - ÞÓR

  • Stöðutafla og leikjadagskrá (hsi.is)
  • Niðurstaðan í fyrra: 5. sæti, 20 stig í 18 leikjum og 2-3 tap í oddaleik í úrslitaviðureign við Fjölni.
  • Spá þjálfara og fyrirliða: 1. sæti.


Strax í mars tilkynntu Þórsarar að Oddur Gretarsson væri á heimleið og myndi leika með liðinu á komandi tímabili. 

Komnir

  • Bergvin Þór Gíslason frá Aftureldingu.
  • Hafþór Már Vignisson frá ØIF Arendal.
  • Kristján Gunnþórsson frá KA.
  • Leó Friðriksson frá KA.
  • Oddur Gretarsson frá Balingen-Weilstetten.
  • Ólafur Atli Malmquist Hulduson frá Fjölni.
  • Þórður Tandri Ágústsson frá Stjörnunni.