Fara í efni
KA

Alex Íslandsmeistari í kraftlyftingum

Myndir af heimasíðu KA

KA-maðurinn Alex Cambray Orrason varð Íslandsmeistari í kraftlyftingum með búnaði um síðustu helgi. Alex, sem keppti í - 93 kg flokki, lyfti samtals 812,5 kg. Greint er frá þessu á heimasíðu KA.

Ekki nóg með að Alex ynni sinn þyngdarflokk heldur lyfti hann samanlagt mestri þyngd allra á mótinu.

Í kraftlyftingum er keppt í þremur greinum, hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu, og ýmist keppt með sérstökum búnaði eða án búnaðar auk þess sem keppendum er skipt í þyngdarflokka eftir líkamsþyngd. Sigurvegari er loks sá sem lyftir mestri þyngd samanlagt í öllum þremur greinum.

Árangur Alex á Íslandsmótinu:

  • Hnébeygja: 320 kg
  • Bekkpressa: 207,5 kg
  • Réttstaða: 285 kg
  • Samtals: 812,5 kg

Alex hefur verið einn öflugasti kraftlyftingamaður landsins undanfarin ár og verið að ná góðum árangri á sterkum mótum víðsvegar um Evrópu. Hann býr sig nú undir Evrópumótið sem fram fer í Lúxemborg.

  • Munurinn á klassískum kraftlyftingum og búnaðarlyftingum, sem svo eru kallaðar, er sá að í þeim klassísku má ekki notast við neinn aukabúnað eins og bekkpressuboli eða stálbrækur. Hnévafningar sem hægt er að herða að eins og með frönskum rennilás eru einnig bannaðir. Aðeins má nota hnéhólka sem ekki er hægt að herða og vafninga fyrir úlnlið.