Íbúðarhúsnæði vantar tilfinnanlega í Hrísey
Næstum helmingur allra húsa í Hrísey eru orlofshús. Fjölskyldur geta ekki flutt þangað vegna skorts á íbúðarhúsnæði. Hríseyingar hafa áhyggjur af afleiðingunum sem þessi þróun gæti haft. Þetta kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins.
Þar segir að Hríseyingum geti ekki fjölgað vegna húsnæðisskorts. „Hrísey er fögur og búsældarleg, og á undanförnum árum hefur orlofshúsaeigendum í eynni fjölgað. Það má því segja að Hrísey sé orðin fórnarlamb eigin velgengni,“ segir í fréttinni.
„Staðan er bara sú að Hríseyingum getur ekki fjölgað vegna skorts á húsnæði. Hingað vill koma fólk en það hefur engan stað til að búa á,“ segir Ásrún Ýr Gestsdóttir, Hríseyingur og verkefnisstýra byggðarþróunarverkefnisins Áfram Hrísey.
Smellið hér til að sjá frétt RÚV.
Unnið að stofnun þróunarfélags
Byggðaþróunarverkefninu Áfram Hrísey var á vordögunum úthlutað styrk til tveggja ára, samtals 10 milljónum króna úr byggðaáætlun með stuðningi SSNE (Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra). Þessi styrkur er úr sjóði sem er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024.
Ásrún Ýr var áfram ráðin verkefnisstýra í haust. Hún hefur m.a. byggt upp nýja samfélagsmiðla fyrir Hrísey og samtengt þá við hrisey.is vefinn þar sem má finna fréttir, viðburði og allar helstu upplýsingar um lífið í Hrísey.
„Verkefnið og verkefnastjórn þess er í nafni Ferðamálafélags Hríseyjar en unnið er að stofnun Þróunarfélags Hríseyjar sem mun halda utanum verkefnið ásamt fleiri verkefnum sem eru í bígerð. Í upphafi verður unnin stefnumótun fyrir Hrísey sem ákjósanlegan búsetukost og gerð greining á stöðu á húsnæðis- og, atvinnumálum. Í framhaldi verður unnið við markaðssetningu á Hrísey sem vænlegum búsetukosti með áherslu á þá góðu grunnþjónustu sem er til staðar í Hrísey,“ segir í tilkynningu frá Áfram Hrísey.
Ásrún er Hríseyingur í húð og hár sem flutti aftur til eyjarinnar síðla árs 2021 eftir tveggja áratuga búsetu víðsvegar um meginlandið. Ásrún er gift Klas Rask og eiga þau þrjú börn sem öll stunda nám við Hríseyjarskóla. Hún leggur nám á byggðaþróun við félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri sem hún sinnir meðfram verkefninu.
Ásrún Ýr Gestsdóttir verkefnisstýra byggðarþróunarverkefnsins Áfram Hrísey.