Fara í efni
Golf

Skar sig illa á fingri en ætlar að sigra!

Tumi Hrafn Kúld er rétt á eftir efstu mönnum og hvergi banginn fyrir síðasta dag Íslandsmótsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Tumi Hrafn Kúld hefur staðið sig best Akureyringa á Íslandsmótinu í golfi á Jaðarsvelli fram að þessu. Hann spilaði fyrsta hringinn á fimmtudag og þann þriðja í dag á 70 höggum, einu undir pari vallarins, en var á 72 í gær. Hann var því samtals á 212 höggum, einu undir pari.

Tumi Hrafn er sex höggum á eftir efsta manni og er hvergi banginn fyrir lokahringinn á morgun, sunnudag. „Ég hef engu að tapa,“ sagði hann við Akureyri.net eftir keppni dagsins. „Það eru sex högg í fyrsta mann en ég ætla mér samt að vinna! Ég þarf að spila draumahring til að ná því og geri allt sem ég get á morgun til að það takist. Ég ætla bara að ráðast á alla pinna og gera mitt besta.“

Skar lauk – og fingur ...

Þessi mikli keppnismaður sker sig örlítið úr á mótinu, ef svo má segja, þótt hann hafi ekki látið á neinu bera. Að morgni föstudagsins, áður en hann fór annan hring á Íslandsmótinu, tók hann sig nefnilega til og skar lauk heima hjá sér og ekki vildi betur til en svo að hann skar djúpt í vinstri þumalfingurinn! 

„Ég mæli ekkert með því að menn skeri lauk rétt áður en þeir fara í keppni,“ sagði Tumi í gríni við blaðamann áður en hann hóf leik á öðrum degi mótsins.

Tuma var illt í fingrinum og skyldi engan undra en var staðráðinn í að láta óhappið ekki stöðva sig, vel var búið um sárið, og kappinn lék völlinn á aðeins einu höggi yfir pari. Bætti svo um betur og lék á einu undir í dag, sem fyrr segir.

„Ég finn fyrir þessu í löngum höggum, þegar ég slæ fast í boltann,“ sagði hann í dag. „Ég þarf að aðlaga sveifluna, slá lausar og nota svo aðra kylfu en ég er vanur. Það er svo sem ekkert mál að venjast því en það er dálítið vont þegar ég slæ í jörðina og sárið nuddast við kylfuna. En það þýðir ekkert að væla; maður verður bara að vera harður og klára þetta.“

Skurðurinn jafnvel til góðs!

Honum hefur bersýnilega liðið illa í fingrinum en þegar spurt er hvort Tumi hafi verið það kvalinn að hann hafi á einverjum augnablikum íhugað að hætta  keppni stendur ekki á svari: „Nei, það hefur ekki hvarflað að mér!“

Tumi bætir svo við: „Ég ákvað að njóta þess að vera á Íslandsmóti hér á heimavelli. Völlurinn er sennilega í besta standi sem ég hef nokkurn tíma kynnst og eftir á að hyggja hefur það sennilega bara hjálpað mér að ég skar mig! Ég á það til að vera dálítið ævintýragjarn og reyna of mikið. Eftir að ég skar mig hef ég þurft að einbeita mér að því að spila öruggt golf frekar en mikið sóknargolf.“

Tumi Hrafn er í næst síðasta holli morgundagsins sem hefur leik klukkan 12.30.

Tumi Hrafn Kúld eftir að hann lauk keppni á öðrum degi mótsins, í gær, föstudag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.